„Ég er bara ekkert sammála þessari skoðun“

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Sóttvarnalæknir segir að læknar ættu að skoða heildarmyndina áður en þeir gagnrýna ákvörðun um að opna landið fyrir ferðamönnum eftir mánuð. Lokun landsins valdi einnig ýmsum vandamálum. Tvær læknar hafa lýst efasemdum með opnun landsins. „Ég er bara ekkert sammála þessari skoðun og vænti þess að ég geti rætt við þessa góðu kollega mína og við fáum niðurstöðu í þetta mál,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir

Forsætisráðherra greindi frá því á þriðjudag að frá og með fimmtánda júní geti ferðamenn komið til landsins og sloppið við sóttkví ef fara annaðhvort í skimun fyrir kórónuveirunni á Keflavíkurflugvelli eða framvísa heilbrigðisvottorði. Már Kristjánsson smitsjúkdómalæknir vakti athygli á því í viðtali á Morgunvaktinni í dag að ákvörðunin sæti gagnrýni.

„Það sýnist sitt hverjum. Margir af mínum kollegum eru mjög hugsi um þetta og jafnvel bara reiðir útaf því að þetta skuli vera gert,“ segir Már. 

Ragnar Freyr Ingvarsson, sem var yfirlæknir COVID-göngudeildar, segir að ákvörðun um opnun landsins hafi komið á óvart. „Ég er pínu hræddur um að þetta geti kannski verið aðeins of snemma. Faraldurinn hann á enn eftir mikið inni í Evrópu. Þar er talsvert mikið smit á ferðinni og auðvitað hefur maður áhyggjur af því að það berist til Íslands,“ segir Ragnar.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir vísar gagnrýninni á bug: „Það er algjörlega ljóst að það eru margir ekki sáttir. Nákvæmlega eins og margir voru ekki sáttir við það hvernig við stóðum að því að eiga við þennan faraldur í upphafi, jafnt læknar sem aðrir.  Menn hafa fullan rétt á því að hafa sínar skoðanir á þessu en ég held að læknar og aðrir þurfi líka að taka tillit til þess að það þarf á einhverjum tímapunkti að opna þetta land. Ég held að það sé betra að gera þetta núna meðan það er lítil ásókn í að komast hérna inn þannig að við fáum þjálfun og reynslu í því hvernig eigi að eiga við þetta. Þannig að ég er bara ekkert sammála þessari skoðun og vænti þess að ég geti rætt við þessa góðu kollega mína og við fáum niðurstöðu í þetta mál,“ segir Þórólfur.

Fréttastofa spurði Þórólf hvort hann hygðist funda með læknunum sem gagnrýni opnunina. Þórólfur svaraði því til að þær töluðu oft saman.

„Ég sé ekkert athugunarvert við það að þeir vilji halda þessum sjúkdómi algjörlega niðri en þar verður kannski að líta á heildarmyndina og sjá hvort það er hægt að halda þessum sjúkdómi algjörlega í burtu og hvað það mun kosta mikið. Það er hægt loka landinu en það mun valda alls konar öðrum vandamálum sem lenda á annarri starfsemi í heilbrigðiskerfinu. Þannig að ég held að menn þurfi aðeins að skoða heildarmyndina áður en menn tjá sig mjög sterkt um þetta,“ segir Þórólfur.