Dásamlegur ruglingur náttúruvísinda og furðugripa

Mynd: Þórður Ingi Jónsson / .

Dásamlegur ruglingur náttúruvísinda og furðugripa

18.05.2020 - 08:49

Höfundar

Pistlahöfundur Lestarinn sem býr í Los Angeles heimsótti Tæknisafn júratímabilsins þar sem náttúruundur, listaverk og furðugripir eru í sömu hillu og fræðilegur sannleikur gengur hönd í hönd með heimi goð- og þjóðsagna.

Þórður Ingi Jónsson skrifar: 

Eitt undarlegasta safn Bandaríkjanna er The Museum of Jurassic Technology eða Tæknisafn júratímabilsins í Los Angeles. Þetta er alls ekki hefðbundið safn eins og nafnið gæti gefið til kynna. Safnið vekur í raun upp fleiri spurningar en það svarar. Júrasafnið er eins konar nútímaútgáfa af gömlu evrópsku furðugripasafni eins og þau gerðust á endurreisnartímabilinu og fram eftir öldum, þar sem náttúruundur, listaverk og furðugripir voru sýnd hlið við hlið. Fræðilegur sannleikur í bland við heim goð- og þjóðsagna. Hér er einhvers konar töfraraunsæisleg stemning sem eiganda safnsins, David Hildebrand Wilson, hefur tekist að skapa.

Maður veit ekki alveg hver sannleikurinn byrjar og skáldskapurinn endar. Áhrifin eru eins konar undraverður og um leið dásamlegur ruglingur. Slík söfn, sem Evrópumenn komu á laggirnar á nýlendutímanum voru undanfarar náttúrugripasafna nútímans. Alls kyns exótískir munir bárust í stríðum straumum frá nýlendunum og menn voru helteknir af þekkingarþrá þó svo að sú þekking væri ekki alltaf byggð á hávísindalegum grunni. Eins konar vísindalegur sirkus. Júrasafnið reynir ekki að útskýra allt nákvæmlega fyrir manni og skilur mann eftir svolítið ruglaðan, og það trúlega viljandi. Það er markmiðið.

Frá götunni séð lætur byggingin sem hýsir Júrasafnið lítið yfir sér. Stíllinn gæti verið ættaður frá gömlu sjávarþorpi við Miðjarðarhafið, arkitektúr sem stingur örlítið í stúf við In-N-Out hamborgarastaðinn á næsta horni. Gengið er inn í dimman sal sem manni finnst eins og sé frá Viktoríutímabilinu. Maður ráfar á milli dökklýstra sýningarbása, rýnir í skiltin á veggjunum og hlustar á yfirvaldslega rödd í gamaldags símtólinu sem segir söguna.

Einn salurinn inniheldur sýninguna „Talað við býflugur“ eða „Tell the bees“, tileinkuð merkilegum lækningaraðferðum úr gamalli hjátrú. Í öðru herbergi er stór sýning tileinkuð þýska fræðimanninum Athanasius Kircher, sem var uppi á sautjándu öld. Sá rannsakaði meðal annars segulsvið jarðar og ber sýningin það fallega heiti „Heimurinn er bundinn leynilegum hnútum“ eða „The World is Bound with Secret Knots“. Þá er að finna minningarreit í anddyri safnsins um Örkina hans Nóa, eins og henni er lýst í Mósebók. Í kynningarmyndbandi sem spilað er við innkomuna á safnið er það útskýrt að Örkin hafi í raun verið eins og fyrsta náttúrugripasafn sögunnar. Hér ægir öllu saman en samt er eins og allt þetta hafi sinn tilgang, þó maður viti ekki alveg hver hann er.

Sumar sýningarnar virðast vera sprottnar úr ímyndunarafli eiganda safnsins, David Hildebrand Wilson, sem ég hitti þegar ég heimsótti safnið. Einu heimildirnar sem maður finnur um eina eða tvær sýningar á safninu vísa alltaf aftur til byrjunarreits, Júrasafnsins. Samt er þetta sett fram sem heilagur sannleikur, á þurran og vísindalegan hátt. Maður veit ekki hvort það sé verið að spila með mann en gleðin felst í þessari blöndu af trú og vantrú sem maður fær sterkt á tilfinninguna. Háleitum vísindum er stillt upp við hliðina á öllu því óvenjulega sem mannskepnunni dettur í hug; safnið gerir ekki greinarmun á náttúru og menningu. Í kynningarmyndbandi safnsins er minnt á að uppruni orðsins museum sé staður tileinkaður hinum grisku músum, staður þar sem maður getur gleymt hversdagsleikanum og fundið fyrir innblæstri.

Ég enda för mína um þennan ótrúlega í stað í rússneskri setustofu á efri hæð hússins, sem leiðir svo út í garð á þakinu, þar sem eigandinn, David Hildebrand Wilson, leikur á sænska lykilhörpu í skugganum við gosbrunninn. Þetta er allt í stíl. Ég byrja á því að biðja hann um að setja safnið í einhvers konar samhengi, sem hann sagist ekki geta gert. Um sýningarnar segir Wilson: „Rauði þráðurinn er það sem liggur utan meginstraumsins, utan miðlæga sjónsviðs augans. Það sem bindur sýningarnar saman er viðleitni mannsins til að skilja umheiminn og hvernig hann var skapaður.“ 

Þá hafa eigendur safnsins mikinn áhuga á hlutum sem hafa fallið í ónáð á einhvern hátt, eins og sýningin um gamlar lækningaraðferðir vitnar um. Wilson vill frekar nota orðið þjóðtrú en hjátrú þar sem margir jákvæðir hlutir í vestrænni læknisfræði hafi komið úr þjóðtrúnni. „Það eru oft mikilvægar staðreyndir sem felast í gleymdum fróðleik,“ segir Wilson.

Eftir spjallið höldum við á bak við safnið, þar sem herra Wilson býr í litlum húsbíl í bakgarðinum en í tjaldi þar geymir hann risastórt sjálfspilandi orgel, sem byggist á hönnun frá árinu 1650 eftir þýska fræðimanninn Kircher sem á brátt að færa inn í safnið.

Tengdar fréttir

Tónlist

Áttunda sinfónía Schuberts kláruð með gervigreind

Menningarefni

Vegur salt milli einlægni og íroníu

Pistlar

Dystópía og undarlegar kenndir á djúpvefnum

Pistlar

Söknuður eftir framtíð sem aldrei kom