Búast við mun lægri vöxtum en stöðugri verðbólgu

18.05.2020 - 11:38
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Flestir spá því að Seðlabankinn lækki stýrivexti verulega á miðvikudaginn og þeir fari jafnvel í fyrsta sinn undir eitt prósent. Í Hagsjá Landsbankans er því spáð að Seðlabankinn lækki vexti um heilt prósentustig og meginvextir bankans verði því 0,75 prósent. Verðbólga haldist stöðug þrátt fyrir óvissutíma og veikingu krónunnar, en gengið hefur ekki verið veikara frá því um mitt ár 2015.

Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur þrívegis lækkað vexti það sem af er ári, samtals um 1,25 prósent. Vextir hafa lækkað hratt undanfarin misseri, farið úr 4,5 prósent í febrúar í fyrra í 1,75 prósent nú. Seðlabankinn lækkaði vexti um eitt prósentustig á einni viku um miðjan mars, þegar áhrif kórónuveirufaraldursins á efnahagslífið létu á sér kræla.

Síðustu mánuði hefur gengi krónunnar veikst um fjórtán prósent gagnvart helstu gjaldmiðlum. Samkvæmt mælingum greiningardeildar Íslandsbanka veldur veiking krónunnar hækkun á verði innfluttrar vöru og dregur úr áhrifum mikillar lækkunar á olíuverði. Lækkun á heimsmarkaðsverði á olíu skilar sér því ekki hingað til lands í sama mæli og annars staðar. Síðustu mánuði hefur eldsneytisliðurinn, í útreikningum á vísitölu neysluverðs, lækkað um níu prósent. 

Báðar greiningardeildirnar spá því að verðbólga verði frekar stöðug næstu mánuði. Verðbólgumarkmið Seðlabankans eru 2,5 prósent og Íslandsbanki spáir því að ársverðbólga verði nálægt því markmiði, en Landsbankinn spáir því að hún nái hámarki í lok árs, fari í nærri 3,5 prósent, og ársverðbólguspáin því líklega aðeins hærri hjá Landsbanknum en Íslandsbanka.