Vill láta rannsaka misnotkun innan kaþólsku kirkjunnar

17.05.2020 - 16:30
epa05715665 A nun walks past  St. Patrick's Cathedral before the start of NYPD Det. Steven McDonald's funeral at St. Patrick's Cathedral in New York, New York, USA, 13 January 2017. The detective was paralyzed from the neck down in 1986 after he was shot by a teen bicycle thief in Central Park.  EPA/JASON SZENES
 Mynd: Jason Szenes - EPA
Erkibiskup kaþólsku kirkjunnar í Póllandi hefur kallað eftir því að Vatíkanið rannsaki hvort hylmt hafi verið yfir barnaníð af hendi presta innan kirkjunnar. Þetta gerir hann í kjölfar útgáfu heimildamyndar um málefnið.

Heimildarmyndin kallast Feluleikur. Hún hefur fengið meira en tvær og hálfa milljón áhorfa á streymissíðunni Youtube. Þetta er önnur heimildarmynd bræðranna Marek og Tomasz Sekielski sem segir sögu tveggja fórnarlamba sem reyna að leita uppi prest innan kirkjunnar sem er sagður hafa misnotað þau og láta hann gangast við gjörðum sínum.

Kemur ekki til greina að fela slíka glæpi

Þess er vænst að Vatíkanið láti rannsaka málið. Erkibiskupinn í Póllandi, Wojciech Polak, sagði í ávarpi að heimildarmyndin sýni að börn hafi ekki verið vernduð af kirkjunni með fullnægjandi hætti í þá daga. Hann bætti því við að ekki komi til greina að fela slíka glæpi. 

Fyrri myndin varð til að lög voru hert

Fyrri heimildarmynd Sekielski bræðranna sem kom út í fyrra er með meira en 23 milljón áhorf á youtube. Í henni er meðal annars leynilega tekið myndefni þar sem prestar játa gjörðir sínar. Hún vakti hörð viðbrögð og varð til þess að ríkisstjórn Póllands tvöfaldaði refsitíma fyrir sakfellda barnaníðinga.

Kaþólska kirkjan í Póllandi viðurkenndi í fyrra að næstum 400 klerkar höfðu misnotað börn yfir síðustu þrjá áratugi.