Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tvískinnungur Demókrata og Biden (ekki) í bobba

17.05.2020 - 07:30
Mynd: Heimskviður / RUV
Joe gamli Biden gæti vel orðið næsti forseti Bandaríkjanna. Þessi 78 ára silfurrefur sem hefur verið í fimmtíu ár í pólitík. Sleepy Joe Biden eins og sitjandi forseti kallar hann, þessi viðkunnalegi gamli kall sem brosir svo fallega. Já, það ætti ekki að koma á óvart, verði hann kjörinn næsta haust. Hann er jú allt sem Donald Trump er ekki; hann er jafnréttissinni, býður útlendinga velkomna, var varaforseti hins vinsæla Baracks Obama og ber virðingu fyrir konum.

Við komum betur að þessum síðasta punkti aftur á eftir. Hann er sjarmerandi kall og já bara sannur föðurlandsvinur. Ameríski draumurinn holdi klæddur. Hann er sannarlega ólíkur Donald Trump. Jah, fyrir utan það kannski að hann er nær áttræður forríkur hvítur forréttindapési með typpi. 

En Joe gamli Biden er líka einn af þessum köllum sem finnst gott að knúsa og kjassa konur, aðrar en sína eigin. Og nú er hann sakaður um að gera gott betur en það, að hafa brotið kynferðislega gegn undarmanni sínum fyrir 27 árum. Er hann gamall perrakall eða er þetta allt saman einn stór miskilningur? Svo virðist sem Demókratar haldi það, og margir af stærstu fjölmiðlum vestanhafs. 

Ásakanir á hendur Joe Biden

Hér fyrir neðan má sjá viðtal við í Töru nokkra Reade, sem starfaði um nokkra hríð í bandaríska þinginu á tíunda áratug síðustu aldar. Reade er ræðir við hina þekktu fréttakonu Megyn Kelly, sem starfar nú sjálfstætt en vann áður fyrir Fox News og NBC. Kelly spyr Reade hvort hún sé með einhver skilaboð til Joes Biden, forsetaefnis Demókrataflokksins. „Við vorum bæði þarna, Joe Biden. Þú ættir að stíga fram og taka afleiðingum gjörða þinna. Þú ættir ekki að vera í framboði til forseta Bandaríkjanna.“

Tilefni viðtalsins eru ásaknir Reade á hendur Joe Biden, um að hann hafi áreitt sig kynferðislega þegar hún starfaði fyrir hann í bandaríska þinginu frá því í desember 1992 til ágúst 1993. Reade greindi fyrst frá þessu í kaliforníska blaðinu The Union í fyrra . Þá sagði hún að Biden hafi átt það til að að setja hönd sína á öxl hennar og renna fingrinum sínum upp hálsinn á henni. Henni hafi þó ekki liðið þá sem hún væri að verða fyrir kynferðislegri áreitni, heldur fremur líkt því við að vera hlutgerð. Henni hefði liðið, eins og lampa. Í viðtalinu greindi hún einnig frá því að hún hafi verið leyst frá störfum eftir að hún neitiaði að þjóna til borðs á einhverjum viðburði tengdum Biden. 

„Hann þrýsti mér upp að veggnum“

En þann 25. mars síðastliðinn, hafði Reade aðra og alvarlegri sögu að segja, í hlaðvarpsþætti hjá bandaríska rithöfundinum og uppistandaranum Katie Halper, að Biden hefði áreitt sig kynferðislega árið 1993. Hún hafi verið á leið til Bidens með sendingu þegar hann hafi mætt henni á ganginum, og þrýst henni upp að vegg, henni að óvörum. Reade segist hafa verið í pilsi og engum sokkabuxum, enda hafi verið sérstaklega hlýtt í veðri þennan dag. Biden hafi þrýst henni upp að köldum veggnum, sett hönd sína á klof hennar og loks stungið fingrum sínum inn í hana. 

Á sama tíma hafi hann kysst hana og spurt hana hvort hún vildi fara annað. Hún ýtti honum í burtu og þá hafi Biden orðið hissa. Ég hélt að þú kynnir vel við mig, á hann að hafa sagt. Reade segir heimsmynd sína hafa brotnað á þessu augnabliki. Hún hafði litið upp til þess manns sem var á aldur við föður hennar og ávallt litið á hann sem sérstakan talsmann fyrir réttindum kvenna. 

Aðstæðurnar voru óraunverulegar, segir Reade, þær voru súrrealískar. Hún sagði Harper að hún hafi ekki þorað að segja alla söguna fyrr, af ótta við að það kæmi í bakið á henni. Hún óttaðist afleiðingarnar, enda Biden valdamikill maður. 

Biden áður þótt sýna óviðeigandi hegðun

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Biden er sakaður um óviðeigandi hegðun, þótt ásakanir Reade séu þær fyrstu þar sem Biden er raunverulega sakaður um kynferðisbrot. Sjö aðrar konur hafa sakað Biden um að hafa snert sig á óviðeigandi hátt, eða hafa ruðst inn á þeirra persónulega svæði á þann hátt að þeim hafi liðið óþægilega. 

Lucy Flores, stjórnmálakona úr röðum Demókrata í Nevada, sakaði á síðasta ári Biden um að hafa gripið um axlir sínar, þefað af hári hennar og kysst sig aftan á hnakkan þegar hún gerði sig reiðubúna að ganga á svið á fjöldafundi í Nevada.  „Heilinn á mér gat ekki meðtekið það sem var að gerast. Ég fór hjá mér, ég var sjokkeruð og ringluð,“ skrifaði hún í grein um reynslu sína á sínum tíma. Hún bætti því við að þótt þessi hegðun hafi kannski ekki verið ógnandi eða ofbeldisfull, hafi hún verið niðurlægjandi og borið vott um viðringarleysi. 

Fleiri konur hafa svipaða sögu af segja. Amy Coll, fyrrverandi starfsmaður Demókrataflokksins, segir Biden eitt sinn hafa kreyst á sér axlirnar og haldið utan um hana lengur en góðu hófi gegni; viðburðastjórinn Sofie Karasek hefur talað um fræga ljósmynd sem náðist af henni og Biden, þar sem sá síðarnefndi heldur um hönd hennar og strýkur henni um enni. Hún var þá 22 ára og segir Biden hafa farið yfir strikið. Amy Stokes Lappos, stuðningsmaður Demókrata í Conneticut, segir Biden hafa tekið utan um höfuð sitt og dregið það nær sér. „Ég hélt að hann væri að fara að kyssa mig,“ sagði hún í samtali við staðarblað á síðasta ári. Þá sagði Catllyn nokkur Caruso, nemandi við háskólann í Nevada í Las Vegas, að Biden hefði tekið utan um sig á fjáröflunarfundi 2016, og haldið sér helst til lengi. „Þú lætur þér ekki einu sinni detta það í hug að manneskja í slíkri valdastöðu myndi dirfast að gera eitthvað svona. Þetta er fólk sem þú átt að geta treyst,“ sagði hún í viðtalið við New York Times í fyrra.

Þá hafa rithöfundurinn DJ Hill og Vail Kohnert-Yount, fyrrum lærlingur í Hvíta húsinu, svipaða sögu að segja.

epa07431344 Former Vice President Joe Biden addresses the International Association of Fire Fighters conference in Washington, DC, USA, 12 March 2019. Biden is weighing a run for the 2020 presidency; his strategist Steve Ricchetti said he is '95 percent committed' to seeking the Democratic nomination.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
 Mynd: EPA
Joe Biden, forsetaefni Demókrataflokksins.

Sagðist ætla að hætta öllu knúsi

Biden er einmitt þekktur fyrir akkúrat þetta; hann tekur mikið utan um fólk og er snertinn í meira lagi. Þegar þessar konur stigu fram í fyrra sá Biden ástæðu til þess að tjá sig sérstaklega um málið á samfélagsmiðlinum Twitter. 

Biden segist alltaf hafa verið hrifinn af því að snerta fólk, þannig sé hann bara. Það sé hans leið til að sýna að hann sé að hlusta og fólk skipti hann máli. Þannig sé hann bara. Hann tekur í hendur, leggur sínar á axlir, knúsar og hvetur. Nú snúist þetta allt saman hins vegar um að taka sjálfur. En tímarnir hafi breyst og hann ætli að taka mið af því.

„Hann bregst við og segir svona, já ég er einstaklingur sem snerti fólk og klappa því á öxlina og tek utan um það, en ég átta mig á því að samfélagið hefur breyst frá því ég er ungur maður. Svona reynir hann að ramma þetta inn, og hans hegðun sé gamaldags og hann þurfi að læra að stilla sig af,“ segir Silja Bára Ómarsdóttir, góðvinur Heimskviða og dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Í kjölfar þessa yfirlýsingar hafi raddir um óviðeigandi hegðun Bidens nokkurn veginn fjarað út, en þegar Reade steig fram aftur í mars síðastliðnum, hafi þær orðið háværari að nýju, enda ásakanirnar öllu alvarlegri en áður. 

„Og hún sakar hann í raun og veru um kynferðisbrot núna,“ segir Silja Bára. En þrátt fyrir þessar alvarlegu ásakanir, hefur þetta mál ekki fengið sérstaklega mikla umfjöllun í stærstu fjölmiðlum Vestanhafs. 

„Það er mikið talað um þetta hjá Fox, en miklu minna hjá öðrum stærri fjölmiðlum, og sérstaklega lítið á stóru kapalsjónvarpsstöðvunum,“ segir Sija Bára.

Viðbrögð fjölmiðla

Það er kannski einmitt þessi punktur sem Silja nefnir, sem er einna athyglisverðastur í þessari sögu. Margir af stærstu fréttamiðlum Bandaríkjanna hafa lítið sem ekkert fjallað um ásakanir Töru Reade. Og þá sér í lagi sjónvarpsfréttastöðvar.

„Fjölmiðlar í Bandaríkjunum eru mjög afgerandi hliðhollir ólíkum stjórnmálaflokknum. Hvorki MSNBC né CNN hafa tekið viðtöl við Töru Reade. Maður myndi halda að í svona máli fengi þetta meira vægi. Hins vegar hafa bæði álitsgjafar og fréttamenn á FOX fjallað mikið um málið,“ segir Silja Bára.

Hér að ofan má sjá umfjöllun Sean Hannity, fréttamanns á Fox News. Hannity er harður Trumpari og leiðist því ekki að benda á þann tvískinnung sem Joe Biden virðist nú sekur um, þegar hann rifjar upp tveggja ára gömul ummæli Bidens þess efnis að segist kona hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi, eigi maður að gera ráð fyrir því að hún sé að segja satt. Og það er nefnilega þannig, eins og Silja nefnir, að sjónvarpsstöðvarnar virðast nú, í aðdraganda kosninga, verða enn skýrari í stuðningi sínum við Demókrata annars vegar og Repúblikana hins vegar. Fréttamenn Fox þreytast ekki á að benda á þögn CNN og MSNBC, þótt frjálslyndir prentmiðlar hafi vissulega talað um málið og aðrir, eins t.d. PBS.

„Þetta er sannarlega litað af einhverri hugmyndafræði og Biden hefur alltaf verið vinsæll í fjölmiðlum. Þau [frjálslyndu fjölmiðlarnir] vilja ekki tala um þetta vegna þess að þetta er óheppilegt,“ segir Silja Bára.

Já, þetta er sannarlega óheppilegt. En þótt þetta sé óheppilegt eru þetta alvarlegar ásaknir, og maður veltir fyrir sér hlutverki á fjölmiðla þegar slíkt kemur upp. Þeir þurfa kannski ekki að taka afstöðu með einum eða öðrum, en að fjalla lítið sem ekkert um málið er í besta falli, tja, forvitnilegt.

Sagan að endurtaka sig?

Ben Smith, blaðamaður á New York Times, segir að það sama sé nú að gerast hjá ákveðnum sjónvarpsfréttastöðvum og þegar Juanita Broaddrick ásakaði Bill Clinton um að hafa nauðgað sér árið 1978. Vissulega hafi málfllutningur Broaddrick verið gloppóttur, líkt og málflutningur Töru Reade þykir, en hlutverk fjölmiðla sé þó ekki að líta undan. „Ef þú ert blaðamaður, þá skiptir það í raun og veru ekki máli hverju þú trúir, eins lengi og þú segir frá því sem þú veist,“ segir hann

Það sama er að gerast núna, segir Smith. Eins og í tilfelli Broaddrick séu hnökrar á sögu Reade. Hún hafi einu sinni sagt jú, jú Biden var snertinn og nærgöngull og allt það, en hann áreitti mig ekki kynferðislega, en saga hennar sé nú búin að breytast. Reade segir þá að hún hafi lagt fram formlega kvörtun á sínum tíma, en sú tiltekna kvörtun hefur ekki enn fundist. 

„Án þessara skjala er í raun og veru lítið annað líklegt en að þessu máli verði vísað frá,“ segir Silja Bára.

En líkt og Ben Smith á New York Times bendir á, er það þó ekki tilefni til þess að hlusta ekki á hana. CNN, NBC og MSNBC hafa vissulega fjallað um þetta mál, en ekki tekið viðtal við sjálfa Töru Reade.

Mynd með færslu
Hillary Clinton á kosningafundi í Norður-Karólínu. Mynd: EPA
Hillary Clinton í kosningabaráttunni 2016.

Ærandi þögn Demókrata

Þá hafa viðbrögðin innan úr sjálfum Demókrataflokknum ekki síður vakið athygli, eða öllu heldur skortur á þeim. Hátt settir aðilar innan flokksins hafa fylkt sér á bak við Biden og nokkur samhljómur virðist vera meðal flokksforystunar um að tala ekki um þetta mál. Yngri og róttækari flokksmenn hafa þótt látið heyra í sér, og á fimmtudag gáfu nokkrar flokkskonur út yfirlýsingu þess efnis að ef Biden tjái sig ekki tæpitungulaust um ásakanir Töru Reade, eigi hann á hættu á að missa stuðning flokkskvenna, sem gæti gefið Donald Trump byr undir báða vængi í haust. Engu að síður eru þessar konur í miklum minnihluta. 

„Kvennahreyfingin í Demókrataflokknum hefur átt erfitt með að stíga fram og styðja Töru Reade. Einhverjar hafa gert það, en flestir Demókratar virðast núna meta það sem svo að í þessu máli verði þeir að fórna þeirri mórölsku stöðu sem þau tóku, til dæmis í Brett Kavanaugh málinu,“ segir Silja Bára.

Þegar skipa átti Brett Kavanaugh dómara við hæstarétt Bandaríkjanna fyrir tveimur árum, greindi sálfræðiprófessorinn Christine Blasey Ford frá því að Kavanaugh hefði bortið á sér kynferðislega þegar þau voru saman í menntaskóla snemma á níunda áratugnum. Þá sökuðu tvær aðrar konur Kavanaugh um kynferðislegt ofbeldi/kynferðislega áreitni. Málið vakti mikla athygli og hélt dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings vitnaleiðslur, og Hvíta húsið lét rannsaka málið. Allt kom fyrir ekki og var Kavanaugh skipaður dómari á endanum. 

epa07001649 Circuit judge Brett Kavanaugh appears before the Senate Judiciary Committee's confirmation hearing on his nomination to be an Associate Justice of the Supreme Court of the United States in the Hart Senate Office Building in Washington, DC
Brett Kavanaugh, sem tilnefndur hefur verið til setu í hæstarétti Bandaríkjanna.. Mynd: EPA-EFE - EPA
Brett Kavanaugh.

„Ég trúi konum“ orðið „ég trúi Biden“

Demókratar fóru mikinn í þessu máli og voru ósáttir við rannsókn Hvíta hússins á ásökunum kvenna og hvernig staðið var að henni. Þá ber einnig að hafa í huga að Demókrataflokkurinn fór sömuleiðis mikinn í #metoo-byltingunni svokölluðu fyrir nokkrum árum og í öllum þeim skítuga stormi, eins og Kaninn segir, sem einkenndi Donald Trump og hans samskipti við konur í aðdraganda kjörs hans til forseta 2016. Demókrataflokkurinn gefur sig út fyrir að vera flokkur sem hlustar á konur, og þá sérstaklega þegar þær segjast hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni, eða árás. Felst því ekki einhver stórfenglegur tvískinnungur í þögn Demókrata nú?

„Jú, það er bara mjög einfalt svar,“ segir Silja Bára. „Þetta er flokkur sem reyndi að eigna sér soldið MeToo byltinguna og slagorðið „ég trúi konum“ virðist vera orðið „ég trúi Biden.“ Þetta er mjög slæmt fyrir flokkinn, og sérstaklega þegar áhrifamiklar konur innan hans segjast frekar trúa gömlum hvítum karli heldur en konu sem var ung og átt sitt lífsviðurværi undir því að vera honum þóknanleg. Þetta eru ekki stjórnmálin sem þau vilja iðka. En þetta er þeirra frambjóðandi og þau þurfa að verja hann.“

Þá segir Silja Bára mögulegt að stuðningur við Biden hefði dvínað ef málið hefði komið upp í janúar, þegar Biden var langt frá því að tryggja sér útefningu Demókrataflokksins. En það sé alls ekki víst. „Rannsóknir sýna að kynlífshneyksli virðist hafa lítil áhrif á möguleika til þess að ná kjöri. Þau hafa hinsvegar meiri áhrif á möguleika kvennam, eins og sást í tilfelli Hillary Clinton. Ég er því ekki sannfærð um að það hefði breytt neitt sérstaklega miklu því kjósendur virðast tilbúnir að fyrirgefa körlum brot af þessu tagi.“

Viðbrögð Bidens: „Þetta gerðist ekki!“

Talandi um þagnir og viðbragðsleysi. Hvernig hefur sjálfur Joe Biden brugðist við ásökunum Töru Reade. Ég greindi frá því fyrr í þessum pistli hvernig hann sagðist ætla að hugsa sinn ganga og hætta að knúsa, kjassa og kyssa fólk þegar konurnar sjö greindu frá óviðeigandi hegðun hans í fyrra. 

Þótt lítið hafi verið fjallað um ásakanir Reade á stærstu sjónvarpsfréttastöðunum, var Biden fenginn í viðtal í morgunþætti á MSNBC, sem heitir því viðeigandi nafni Morning Joe, þann 1. maí síðastliðinn. Þar fékkst hann loks til að tala um þessar ásakanir. Aðspurður þvertekur hann fyrir að hafa gert það sem Reade segir hann hafa gert. Þetta átti sér aldrei stað, segir hann.  

Þáttastjórnandinn Mika Brzezinski ætlaði hins vegar ekki að sleppa Biden svona auðveldlega, og benti honum á hvað hann hefði sagt þegar vitnaleiðslurnar yfir Brett Kavanaugh stóðu yfir, um að það eigi að ganga út frá því að konur sem segist hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi, séu að segja satt. 

Eigi það ekki við núna? Því svarar Biden með því að konur eigi rétt á því að það sé hlustað á þær, en að lokum sé það þó sannleikurinn sem máli skiptir, og í þessu tilfelli sé ásakanirnar ósannar. 

Biden þótti ekki koma vel út úr þessu viðtali, en engu að síður virðist sem storminn sé að lægja. Það er að segja ef nokkurn tímann hafi verið hægt að tala um einhvern storm. Að öðru leyti hefur Biden verið þögull sem gröfin og nær því að nýta sér þann meðbyr sem hann virðist fá bæði frá frjáslyndu fjölmiðlunum (að undanskildu viðtalinu í Morning Joe) og innan úr eigin flokki. 

„Biden hefur valið að þegja og þetta mál auðvitað minnir meira á Monicu Lewinsky málið að vissu leyti heldur en önnur hneyksilsmál,“ segir Silja Bára. Kvennahreyfingin í Demókrataflokknum hefur átt erfitt með að stíga fram og fordæma. Eins og þegar Clinton varð forseti, þá sögðu þau nú er tækifærið okkar eftir langa valdatíð Repúblikana, segir Silja Bára. 

Getur verið að atburðarrásin nú minni einmitt á það þegar Monica Lewinsky greindi frá ástarsambandinu sínu við Bill Clinton þáverandi forseta Bandaríkjanna um miðbik tíunda áratugarins, og flokksmenn stukku upp til handa og fóta til að verja forsetann? Nú þegar aðeins rétt tæpir sex mánuðir eru til kosninga? 

Þá er einnig vert að taka fram að Biden hefur hingað til verið talinn baráttumaður fyrir réttindum kvenna. Fyrir 26 árum voru samþykkt tímamótalög á bandaríska þinginu, frumvarp sem Biden lagði fram, sem gerði það að verkum að ofbeldismenn sem lömdu eiginkonur sínar, gátu ekki lengur flúið yfir í næsta ríki Bandaríkjanna til þess að forðast refsingu. 

„Þetta er kynjajafnréttismál, þau verða alltaf aukaatriði, þeim er ýtt til hliðar og þau eru minna mikilvæg heldur en að í þessu tilviki að ná Hvíta húsinu aftur að úr höndum Repúblikana,“ segir Silja Bára.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Silja Bára Ómarsdóttir, dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.

Demókratar mega ekki við fleiri áföllum

Það er alveg ljóst að Demókratar mega ekki við neinum áföllum á þessum tímapunkti. Samkvæmt nýjustu könnunum hefur Biden naumt forskot á Trump á landsvísu, en það má ekki mikið út af bregða. Nái Bandaríkin að koma böndum á útbreiðslu kórónuveirunnar á næstu vikum og Trump í kjölfarið að snúa því sér í hag, gæti svo farið að Trump komi mjög sterkur inn í kosningabaráttuna í sumar og haust. Veðbankar í Bandaríkjunum, veðja enn á sigur Trumps í haust

Mjög líklegt þykir að Trump geri sér mat úr þessu máli fyrr en síðar, en eftir stendur sú staðreynd, segir Silja Bára, að þetta hafi ekki teljandi áhrif á möguleika Bidens til að gegna embætti forseta Bandaríkjanna. 

„Ég býst ekki við að þetta hafi úrslitaáhrif á möguleika Bidens til að halda tilnefningunni, og ekki endilega áhrif möguleika hans í kosningunum. Það gæti verið að hann missi eitthvað fylgi frá konum út af konum út af þessu, en Repúblikanar unnu hvítar konur síðast þrátt fyrir að þessar sambærilegar ásakanir, eða jafnvel verri ásakanir, á hendur Trump í þeirri kosningabaráttu. Þannig að, nei, ég held því miður að þetta sé ekki mál sem að kjósendur setja í nógu mikinn forgrunn til að það valdi úrslitum.“