„Þurfum að hafa þolinmæði í það að skulda þessa kreppu“

Mynd: Skjáskot / RÚV
Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, segir að stjórnvöld verði að hafa þolinmæði í að skuldsetja sig til að bregðast við kreppunni frekar en að selja ríkiseignir og skera niður. Benedikt Jóhannesson, stærðfræðingur og fyrrverandi fjármálaráðherra segir ekki ástæðu til svartsýni þrátt fyrir áföll.

Drífa og Benedikt ræddu efnahagslífið í ljósi kórónuveirufaraldurs í Silfrinu í dag.

Drífa sagði að eftir hrun hefðu allir sett undir sig hausinn til að komast í gegnum kreppuna. Uppskeran hefði verið kulnun í starfi og aukin örorka. „Við vörum við þeim söng sem er byrjaður nú þegar að það þurfi einhvern veginn að fara að drífa ríkissjóð upp á núllið aftur. Við þurfum að hafa þolinmæði í það að skulda þessa kreppu í staðinn fyrir að stökkva til að fara að selja ríkiseigur eða draga úr þjónustu innviða eða auka kostnað almennings í mennta- og velferðarþjónustu.“

Drífa sagði það ekki vera stórslys að ríkið skuldaði fé nú þegar vextir væru við núllið.

Erfið staða ekki endilega ástæða til svartsýni

Benedikt sagði að veikasti hlekkurinn í aðgerðum ríkisstjórnarinnar væri ef til vill sá að ekki væri nóg gert í að efla nýsköpun og frumkvöðlastarf, þar væri tækifæri til að byggja upp til framtíðar. „Þessi fræga þjóðarkaka er að minnka, það verður minni landsframleiðsla. Það verður minna úr að spila. Ég held að við þurfum að vita það en það er ekki þar með sagt að við verðum að vera svartsýn,“ sagði Benedikt. Innviðirnir væru óskemmdir og fyrirtækin ekki orðin gjaldþrota í röðum.

Bæði töldu að vinnuvika myndi styttast. Benedikt vegna tæknivæðingar og aukinnar sjálfvirkni. Drífa sagði margvíslegan ávinningu með minna vinnuálagi. „Með því að stytta vinnuvikuna hjá fólki sem er í andlega og líkamlega erfiðum störfum erum við líka að búa til rými fyrir fleiri störf og koma í veg fyrir að við séum að velta vandanum yfir á næstu fimm til tíu árin, eins og var gert að einhverjum hluta í hruninu.“

Þurfa að verja fé ríkisins

Benedikt sagði að passa yrði hvert peningarnir sem ríkið setur í aðgerðir fara. „Við þurfum að verja peningunum vel. Eitthvað sem ekki var arðbært áður verður ekki arðbært þótt að það sé komin kreppa. Við verðum að passa okkur á því. Förum í arðbæru störfin.“ Hann sagði að horfa yrði til þess að sum fyrirtæki voru illa stödd fyrir kreppu.