Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Telur Seltjarnarnes setja á bann án laga og raka

17.05.2020 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd: Ásrún Brynja Ingvarsdóttir - RÚV
Seltjarnarnesbær bannar fólki að stunda sjóíþróttir á Seltjörn af ótta við að það trufli fuglavarp. Íþróttaiðkendur hafa efnt til undirskriftasöfnunar til að gagnrýna bannið. Þeir telja það hvorki byggt á rökum né lagaheimildum.

Skúli Magnússon héraðsdómari er einn þeirra sem gagnrýnir bannið. Hann segir sjóíþróttir hafa verið stundaðar á Seltjörn i marga áratugi og bannið hafi því komið verulega á óvart. Engar rannsóknir liggi að baki þessu banni. 

„Og í raun og veru furðum við okkur á því að málið sé ekki einfaldlega skoðað og það sé kannað hvaða áhrif við höfum. Það er hægt að gera það með einföldum hætti. Með því að koma og fylgjast með því hvað er að gerast. það er heldur ekki eins og það sé fjölmennur hópur að stunda þetta,“ segir Skúli. Hann hefur óskað eftir upplýsingum frá bæjarvöldum um það á hvaða rökum bannið er byggt en engin svör fengið önnur en þau að málið sé í skoðun. „Við biðjum um það eitt að fá að njóta sannmælis,“ segir hann.  
 
Grótta hefur verið friðuð um árabil frá miðjum maí og fram á mitt sumar vegna fuglavarps en Skúli segist alls ekki gera athugasemdir við það. „Þetta mál snýst ekki um friðun Gróttu og við höfum margoft stöðvað fólk sem er á leiðinni út í Gróttu“ segir Skúli. 

Það er ekki algengt að dómarar taki þátt í samfélagsumræðu eða gagnrýni yfirvöld. Skúli segir eðlilegt að spyrja hvort það sé viðeigandi. Hann telji sig hins vegar vera beittan órétti í þessu máli og dómarar njóti líka mannréttinda á borð við tjáningarfrelsi.

„Ég get alveg játað það að mér finnst óþægilegt að vera settur í þá stöðu að þurfa að standa í ágreiningi út af svona máli og ég legg áherslu á það að öll mín afskipti af þessu máli eru á grundvelli þess að ég er einfaldlega einn af þeim sem hafa verið að stunda þarna sjóíþróttir og ég reyni að halda mínu starfi algerlega fyrir utan þetta,“ segir Skúli
 

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV