Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Meistari fáránleikans

Mynd: cc / cc

Meistari fáránleikans

17.05.2020 - 13:19

Höfundar

Rússneski rithöfundurinn Danííl Kharms er í seinni tíð talinn einn merkasti höfundur absúrdbókmennta í hinum vestræna heimi. Í verkum sínum tókst hann á við fáránleika tilverunnar í sögum sem einkennast af grimmum húmor, kaldhæðni, ósamkvæmni og rökleysu. Gamlar konur detta út um glugga er heiti á nýrri bók sem hefur að geyma örsögur eftir Kharms, í þýðingu þeirra Áslaugar Agnarsdóttur og Óskars Árna Óskarssonar.

Danííl Kharms fæddist í Sankti Pétursborg 30. desember árið 1905, og varð með tímanum þekktur sem sérlundaður framúrstefnulistamaður og höfundur barnabóka sem út komu á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar. Hann var ljóðskáld, smásagnahöfundur, leikskáld og fulltrúi framúrstefnustrauma í sovéskum bókmenntum, hreifst snemma af framúrstefnuskáldskap sem þá var áberandi í bókmenntakreðsum Pétursborgar. Þau verk sem hann er nú þekktastur fyrir komu ekki út fyrr en að honum látnum. Kharms reyndist á sínum tíma nánast ómögulegt að gefa út verk sín, og hann var lítt þekktur á Vesturlöndum þangað til seint á tuttugustu öld þegar sögur hans fóru að koma út á ensku og fleiri tungumálum. „Hann fékk eiginlega ekkert útgefið og var því ekki mjög þekktur meðan hann lifði,“ segir Áslaug Agnarsdóttir þýðandi. „Hann lifði á því að skrifa barnasögur og ljóð og þetta fékk hann að gefa út flest öll árin. Nema árið 1937, þá varð honum á að birta ljóð í tímariti, þetta var ljóð fyrir börn, og fjallaði um mann sem gekk út í búð til að kaupa sér tóbak, og kom ekki aftur heim, hvarf semsagt, svona sögur voru ekki vinsælar og þá féll hann í ónáð og eftir þetta fékk hann ekkert útgefið, þessi fjögur ár sem hann átti eftir ólifuð.“ 

Ekki allt sem sýnist 

Kharms komst upp á kant við stjórnvöld á fjórða áratugnum þegar hert var mjög að tjáningarfrelsi rithöfunda á miðjum valdatíma Stalíns. „Á fjórða áratugnum er verið að setja stífar reglur um hvað rithöfundar mega skrifa um. Þeirra skrif eiga að vera í anda sósíal-realisma, og þetta líkaði honum náttúrlega alls ekki, þetta var mjög fjarri hans hugsunarhætti.“ Áslaug segir að þrátt fyrir að stíll Kharms geti virst einfaldur á yfirborðinu sé merking sagnanna oft dýpri en virðist við fyrstu sýn. Hún segir örsögur Kharms veita innsýn í andrúmsloft á tímum ógnarstjórnar og undirstriki með sínum hætti bjargarleysi sögupersóna. „Hann lifir náttúrulega á mjög sérstökum tímum. Er að gefa út aðallega á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar, og það eru mjög erfiðir tímar í Rússlandi. Samt verða miklar breytingar á þessum árum, á þriðja áratugnum var ennþá talsvert frelsi og hann gat skrifað ýmislegt sem á fjórða áratugnum gekk bara alls ekki. Hann stofnaði samtök, OBERIU, sem þýðir eiginlega Samtök um raunverulega list, ásamt félögum sínum tveimur sem var mjög skammlíft reyndar. Þeir voru aðallega með uppákomur, leikhús og allskonar gjörninga og gáfu ekki mikið út, og svo leystist þetta upp þremur árum síðar þegar þeir voru handteknir.“ 

Róttækur og íhaldssamur í senn

„Ég hef aðeins áhuga á hinu fáránlega, á því sem er alveg út í hött. Ég hef einungis áhuga á lífinu þegar birtingarmynd þess er fjarstæðukennd.“ Þannig komst Kharms að orði í dagbókarskrifum árið 1937, sama ár og hann féll í ónáð hjá stjórnvöldum. „Hann var bæði íhaldssamur og róttækur, rótækur í því að hann vildi breyta, hann vildi hneyksla, hann vildi ganga fram af fólki og gera eitthvað nýtt. En hann var líka íhaldssamur vegna þess að það var margt sem fylgdi byltingunni sem honum líkaði ekki.“

Upphafsmaður hins svarta húmors

Sögur furðusagnameistarans Kharms einkennast af kolsvörtum húmor og fáránleika, hann var absúrdisti löngu á undan Ionesco og öðrum höfundum absúrdleikhússins um og upp úr miðri síðustu öld, og sótti meðal annars í „meistara vitleysunnar“, menn á borð við Lewis Carroll og Nikolai Gogol. Sögur hans eru fyndnar, kaldhæðnar, frumlegar, ofbeldisfullar, og já fáránlegar, fáránleiki þeirra „vegur salt á milli hláturs og hrollvekju,“ skrifar Árni Bergmann í eftirmála í bók sem hefur að geyma þýðingar hans á sögum Danííls Kharms og kom út í tímarits-hefti Bjarts og frú Emilíu árið 2000. Í sögum hans er börnum fargað, menn eru lamdir með gasofnum, gamlar konur detta út um glugga, og á vegi okkar verða reykjandi kettir með gleraugu. „Aðeins tilgangslausar aðgerðir veita okkur ánægju,“ segir ein af persónum Kharms. Þetta er hlægilegt og hrollvekjandi í senn. Persónurnar verða fyrir dularfullum áföllum eða þær deyja með undarlegum hætti. Sögurnar eru bæði galgopalegar og myrkar. Oftar en ekki enda sögur Danííls Kharms algerlega í lausu lofti, „annað var það nú ekki,“ og svo framvegis. Kharms hefur oftar en einu sinni verið kallaður upphafsmaður hins svarta húmors.

Einn af þeim allra bestu

Danííl Kharms lifði þá tíma í Sovétríkjunum þegar það gat verið beinlínis lífshættulegt að skrifa sögu um mann sem skreppur út í búð til að kaupa tóbak en kemur ekki heim aftur. Hann var fangelsaður tvisvar, meðal annars fyrir að vera talinn andsovéskur barnabókahöfundur, gerði sér um síðir upp geðveiki og var lagður inn á geðveikrahæli þar hann svalt í hel í umsátrinu um Leníngrad í febrúar árið 1942. Það var ekki fyrr en á tímum glasnost-stefnu Gorbatsjovs og málfrelsinu sem henni fylgdi á níunda áratug síðustu aldar sem rofaði til í útgáfumálum Danííls Kharms, um það bil hálfri öld eftir andlát hans. Þá áttuðu menn sig á því hvílíkan fjársjóð höfundarverk hans hafði að geyma. Fyrstu útgáfurnar komu árin 1987 og 1988 en heildarverk hans kom ekki út í Rússlandi fyrr en árið 2002, barnasögurnar voru hins vegar gefnar út árið 1962. „En hann er mjög þekktur í dag, bæði fyrir vestan og austan,“ segir Áslaug Agnarsdóttir, „og þykir einn af þeim allra bestu.“

Rætt var við Áslaugu Agnarsdóttur í Víðsjá.

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Framtíð ljóðsins á netinu

Tónlist

Mikil flétta mannlegrar tilveru

Leiklist

Hárbeitt háð um handhafa valdsins

Leiklist

Niðurlægjandi að vera manneskja