Í staðinn hafa sundfélagarnir hist í kaffi. „Aðalumræðuefnið er bara hvenær opnar sundlaugin. Það er að ske á morgun, sem betur fer,“ segir Pétur jafnframt.
Á miðnætti verða sundlaugarnar í Reykjavík og víðar opnaðar eftir tæplega tveggja mánaða lokun. Pétur ætlar ekki að láta sig vanta í fyrramálið. Helmingi færri mega fara í sundlaugarnar næstu vikur en venjulega. Það verða því mest 350 manns í einu í Laugardalslaug en ekki 700.
Sjá einnig: Átta í hverjum potti á Selfossi
„Við sáum fram á ef við ætluðum að opna 6:30 fyrsta daginn að það gæti verið mikil traffík. Þá ákváðum við að úr því að við megum opna átjánda, þá opnum við bara um leið og átjándi gengur í garð,“ segir Steinþór Einarsson, skrifstofustjóri rekstrar og þjónustu hjá ÍTR.
Forstöðumaður Laugardalslaugar býst frekar við mikilli aðsókn seinnipartinn. „Þá bíður fólk bara. Það er ekkert öðruvísi. Þetta er bara samvinna. Ef fólk er ekkert mjög lengi í sundi. Þá komast fleiri að,“ segir Sigurður Víðisson, forstöðumaður Laugardalslaugar og Sundhallarinnar.
Starfsfólk sundlauganna leggur allt sitt traust á gestina um að sinna sóttvörnum. „Það er gert ráð fyrir að tveggja metra reglan verði virt eins og hægt er. Auðvitað verður hver og einn gestur að hugsa um sig og taka tillit til annarra. Þar sem eru þrengsli í pottum að fólk sé ekki að troðast og viði þá sem eru í kringum sig,“ segir Steinþór. Stefnt er að því að fleiri megi safnast saman í laugunum 2. júní og þær geti tekið á móti hámarksfjölda um miðjan júní.