Jepplingur eyðilagðist í eldi

17.05.2020 - 21:22
Mynd með færslu
 Mynd: Róbert Daníel Jónsson
Jepplingur eyðilagðist í eldi á Svínvetningabraut í Langadal í dag. Enginn slasaðist. Fólk á bílnum sem brann kom fólki á öðrum bíl sem bilaði til aðstoðar. Eigandi bílsins sem brann segist hafa spurt vegfaranda eftir startköplum en sá ekki haft neina slíka. Því varð úr að taka fólkið með í bílnum, tveggja ára jepplingi, en þegar setja átti hann í gang blossaði eldurinn upp án nokkurs aðdraganda.

Lögreglu og slökkvilið var tilkynnt um það nítján mínútur yfir tvö í dag að eldur hefði kviknað í tengitvinnbíl.

„Hann var alelda frá upphafi og út frá honum kom eldur í sinu,“ segir Ingvar Sigurðsson, slökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Austur-Húnvetninga. Annar bíll var upp við þann sem kviknaði í en honum var forðað áður en eldurinn náði í hann.

Mynd með færslu
 Mynd: Róbert Daníel Jónsson

Ingvar segir að slökkvistarf hafi gengið vel. Slökkviliðsmenn byrjuðu á því að tryggja að sinueldurinn breiddist ekki út meðan þeir sáu til þess að þeir væru með nógu mikið vatn til að slökkva í bílnum. Samkvæmt viðmiðunarreglum er gert ráð fyrir að slökkvilið þurfti að vera með tólf til fimmtán þúsund lítra til að slökkva eld í rafmagnsbíl. Það er vegna þess hversu lífseigur eldurinn er þegar hann nær í rafhlöðurnar og vegna hættu á að það kvikni aftur í bílnum. Þegar nóg vatn var komið á staðinn tóku slökkviliðsmenn til við að slökka eldinn í bílnum.

„Við erum með dálítið breyttar aðstæður,“ segir Ingvar. Hann segir að með aukinni rafbílavæðingu þurfi að huga að öðrum þáttum en áður þegar kemur að því að slökkva eld í bíl. „Það er staðfest að eldur í þessum bílum er lífseigari, sérstaklega þegar eldurinn er kominn í rafhlöðurnar,“ segir Ingvar. Ef ekki næst að slökkva eldinn áður en vatnið klárast getur hann magnast upp á nýjan leik. Ef maður nær ekki að fara alla leið þá er eins gott að sleppa því að byrja þar til maður er með nógu mikið vatn til að vera öruggur með að slökkva eldinn, segir Ingvar.

Mynd með færslu
 Mynd: Róbert Daníel Jónsson

Lögreglan á Blönduósi rannsakar eldsvoðann.

Mynd með færslu
 Mynd: Róbert Daníel Jónsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV