Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Flugfreyjur og Icelandair funda enn

17.05.2020 - 22:31
Samninganefnd Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair funda hjá ríkissáttasemjara.
 Mynd: Haukur Holm
Samninganefndir Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair sitja enn við samningaborðið hjá Ríkissáttasemjara. Fundur hefur staðið yfir síðan fyrir hádegi í dag.

Aðalsteinn Leifsson, Ríkissáttasemjari, sagði í samtali við fréttastofu að ekki sé vitað hvenær fundi lýkur í kvöld. Röð vinnufunda hefur farið fram í dag og er enn verið að vinna úr þeim. 

Icelandair leggur kapp á að langtímasamningur náist við flugfreyjur fyrir hluthafafund á föstudaginn. Þar verður tekin afstaða til þess hvort fara eigi í hlutafjárútboð þar sem reyna á að ná inn tuttugu og níu milljörðum króna í nýju hlutafé.

Icelandair hefur þegar gert langtímasamninga við flugmenn og flugvirkja og stendur atkvæðagreiðsla um þá samninga yfir.

Icelandair vill að flugfreyjur skili meira vinnuframlagi fyrir sömu laun, en flugfreyjur segja að þær hugmyndir þýði fjörutíu prósenta kjaraskerðingu.