Flugfreyjur og Icelandair á vinnufundum

17.05.2020 - 12:25
Samninganefnd Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair funda hjá ríkissáttasemjara.
 Mynd: Haukur Holm
Samninganefndir Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair eru nú á svokölluðum vinnufundum, en formlegur samningafundur hefur ekki verið boðaður. Icelandair leggur áherslu á að ná samningum fyrir hlutahafafund á föstudag

Síðasti samningafundur flugfreyja og Icelandair var á miðvikudag og stóð í rúma klukkustund. Icelandair vill breytingar á kjarasamningum flugfreyja meðal annars þannig að aukið verði við vinnu fyrir sömu laun til að gera flugfélagið betur samkeppnishæft, en flugfreyjur hafa sagt að hugmyndir Icelandair þýði 40% kjaraskerðingu. Þá hleypti bréf forstjóra Icelandair til félaga í Flugfreyjufélagi Íslands illu blóði í flugfreyjur.

Icelandair hefur samið við flugvirkja félagsins og gildir sá samningur til ársloka 2025. Atkvæðagreiðsla um samninginn stendur nú yfir og stefnt að því að ljúka henni um miðja vikuna. Þá skrifuðu flugmenn undir samning við Icelandair á föstudagsmorgun sem á að gilda til september 2025 og lýkur atkvæðagreiðslu um hann næsta föstudag.

Icelandair hefur lagt áherslu á að gera langtímasamninga og að þeir liggi fyrir áður en kemur til hluthafafundar í félaginu þar sem afstaða verður tekin til hlutafjáraukningar þar sem reyna á að ná 29 milljörðum króna í nýtt hlutafé. Sá fundur verður á föstudaginn kemur. Því er mikill þrýstingur á að ná niðurstöðu í deilu félagsins við flugfreyjur. Deilendur verjast allra frétta af gangi mála. 
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV