Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Átta í hverjum potti á Selfossi

17.05.2020 - 12:41
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Sundlaugar víða um land verða opnaðar á miðnætti eftir að hafa verið lokaðar í tæpa tvo mánuði. Á Selfossi mega átta vera í hverjum potti og þrír í sánu. Um fjörutíu kirkjugestir mættu í fyrstu guðsþjónustu sumarsins í Hallgrímskirkju í Reykjavík  í morgun.

Flestum sem fréttastofa tók tali var létt að fá loksins að mæta í kirkju en opið helgihald hefur fallið niður á meðan samkomubannið var í gildi - þangað til í dag. Sigurður Árni Þórðarson og Irma Sjöfn Óskarsdóttir þjónuðu fyrir altari í Hallgrímskirkju dag. „Þetta er eitthvað sem við erum búin að bíða mjög lengi eftir. Þetta er sérstakur gleðidagur að guðsþjónustur og helgihaldið hefst að nýju. Við eigum ekki von á mörgum en þeim sem eru orðnir verulega messuþurfi,“ sagði Sigurður Árni.

Fjarlægðarmörk tryggð með bleiku bandi

En það er að ýmsu að huga á kórónuveirutímum. Ekki er gengið til altaris og fjarlægðarmörk voru tryggð með bleiku byggingarbandi sem sýndi hvar fólk mátti sitja. „Við erum búin að vera að vinna í því að hafa langt á milli þannig að fólk geti haft sína tvo metra. við erum með sóttvarnarvökva, spritt. og aðskilda innganga inn í kirkjuna. Það er gengið inn norðan og sunnan megin,“ séra Irma Sjöfn Óskarsdóttir.

76 manns í einu í sundhöll Selfoss

Eina mínútu yfir miðnætti verða sundlaugar í Reykjavík opnaðar að nýju eftir að hafa verið lokaðar í tæpa tvo mánuði. Sundlaugarstjórar einhverra lauga út á landi hafa fylgt þessu fordæmi. Sundlaugin á Selfossi verður opnuð líka á miðnætti. Bragi Bjarnason, deildarstjóri frístunda og menningardeildar hjá Árborg segir að laugin þar sé klár. „Leyfa sundþyrstum íbúum og gestum að mæta strax. Það er búið að hafa talsvert samband síðustu vikuna. Sérstaklega til að forvitnast um hvernig viðmiðin verða,“ segir Bragi.

„Fólk mun finna helst fyrir takmörkunum í pottunum, sánuklefunum og í eimbaðinu. Þar sem við eðlilega reynum að búa til aðstæður þar sem fólk geti haft bil á milli sín. í helstu pottana eru við með átta manns en sánuklefana erum við að miða við þrjá,“ segir hann jafnframt.

Mælst er til þess að fólk taki mið af tveggja metra reglunni eins og kostur er. Fjöldi gesta verður takmarkaður fyrst um sinn og mega aldrei vera fleiri en sem nemur helmingi hámarksfjölda samkvæmt rekstrarleyfi. „Heilt yfir hjá okkur megum við fara með 76 mann á klukkutíma. við höfum starfsleyfi fyrir rétt tæplega 150,“ segir Bragi.