Vallarmet á fyrsta hring Guðrúnar Brár

Mynd með færslu
 Mynd: GSÍ

Vallarmet á fyrsta hring Guðrúnar Brár

16.05.2020 - 14:20
Íslandmeistarinn og atvinnukylfingurinn Guðrún Brá Björgvinsdóttir er með fjögurra högga forystu eftir fyrsta hring sínum á ÍSAM-mótinu sem fram fer á Hlíðavelli í Mosfellsbæ. Guðrún Brá fór hringinn á 68 höggum og setti þar með vallarmet.

Guðrún Brá var í ráshópi ásamt atvinnukylfingunum Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur og Valdísi Þóru Jónsdóttur. Hún tók snemma forystuna og var á tveimur höggum undir pari eftir fyrri níu holurnar. Einn skolli og þrír fuglar á síðari holunum níu þýddu að hún fór hringinn á 68 höggum, fjórum höggum undir pari vallarins.

Með því sló Guðrún Brá vallarmet Nínu Bjarkar Geirsdóttur sem fór hringinn á 69 höggum á Meistaramóti GM árið 2015. Ólafía Þórunn kemur næst á pari en Valdís Þóra er á höggi yfir pari eftir fyrsta hring.

Sex atvinnukylfingar voru mættir til leiks í karlaflokki þar sem Ólafur Björn Loftsson stóð upp úr. Hann leiðir eftir fyrsta hring á fjórum höggum undir pari. Áhugamaðurinn Viktor Ingi Einarsson er annar á þremur undir en atvinnumennirnir Andri Þór Björnsson og Axel Bóasson eru auk áhugamannsins Dagbjarts Sigurbrandssonar í þriðja sæti á tveimur höggum undir parinu.

Íslandmeistarinn Guðmundur Ágúst Kristjánsson lék á þremur höggum yfir pari og er í 19.-20. sæti. Atvinnumaðurinn Haraldur Franklín Magnús lék á tveimur höggum yfir parinu.

Kylfingarnir leika allir tvo hringi í dag og mun því staðan eflaust breytast eftir því sem líður á daginn. Þeir síðustu fóru út á braut laust eftir klukkan 14:00.