Trump rekur aftur háttsettan embættismann

16.05.2020 - 05:36
Mynd með færslu
 Mynd: EBU
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur rekið Steve Linick, eftirlitsmann í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna. Linick hóf nýverið rannsókn á Mike Pompeo utanríkisráðherra.

Trump rak Linick í gær. Í bréfi Trumps til Nancy Pelosy, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjanna, greindi hann frá því að hann hafði ekki lengur fullt traust á Steve Linick sem eftirlitsmanni. Það væri ástæða brottrekstursins.

Var að rannsaka Pompeo

Eliot Engel, formaður utanríkismálanefndar fulltrúadeildarinnar, gagnrýnir brottreksturinn í yfirlýsingu og segir þar að Linick hafði verið að rannsaka Mike Pompeo utanríkisráðherra. Þetta gefi það til kynna að brottreksturinn sé ólögmætur.

Fréttastofa AFP hefur eftir heimildarmanni að rannsóknin snerist um að Pompeo hafi mögulega fengið embættismann innan ráðuneytisins til að sinna persónulegum erindum fyrir sig og konu sína. 

Pelosi segir Trump þurfa að láta af refsiaðgerðum í garð ríkisstarfsmanna

Nancy Pelosi segir að með þessu hafi Trump refsað Linick fyrir að sinna skyldum sínum í starfi. Nú sé kominn tími á að Trump láti af síendurteknum refsiaðgerðum sínum í garð ríkisstarfsmanna. 

Stephen Akard verður settur eftirlitsmaður í stað Linick. Akard er fyrrum aðstoðarmaður Mike Pence varaforseta.