Segir rithöfunda missa stóran hluta tekna vegna COVID

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Rithöfundar hafa orðið fyrir miklum tekjumissi vegna COVID-19 faraldursins líkt og aðrir listamenn, segir Margrét Tryggvadóttir, rithöfundur og varaþingmaður. Ástæðan sé sú að upplestrar og önnur verkefni séu stór hluti af tekjum þeirra.

Stjórnvöld ákváðu í síðasta mánuði að bæta 250 milljónum króna í launasjóði listamanna og fjölga þar með um 40 prósent þeim mánuðum sem eru til umsóknar. Sviðslistamenn kölluðu margir hverjir eftir því að skiptingu á milli listgreina yrði breytt. Með því vildu þeir tryggja að stærri hlutur viðbótarinnar kæmi til skiptanna hjá þeim frekar en hjá rithöfundum.

Margrét sagði í Vikulokunum í dag að rithöfundar hefðu orðið fyrir tekjutjóni líkt og aðrir listamenn. Það væri vegna þess að tekjur þeirra af bókum væru takmarkaðar. Á móti reyndu þeir að afla sér tekna með öðrum hætti. „En ég held samt að fólk átti sig ekki á því hvað fyrirlestrar, upplestrar og allt þetta eru mikilvægar tekjur fyrir rithöfunda. Það er ekki hægt að lifa af þessu án þess.“

Margrét sagði að sjálf hefði hún ætlað að fara með erindi inn í grunnskóla á grundvelli bókar sinnar um Jóhannes Kjarval sem kom út fyrir síðustu jól. Vel hefði verið tekið í það verkefni hjá mörgum skólum en ekkert orðið af því vegna COVID-19. 

Tekjur rithöfunda af bókum eru takmarkaðar enda málsvæðið mjög lítið, sagði Margrét. Hún telur að þar gæti misskilnings hjá almenningi. „Fólk sér að þarna er einhver frægur rithöfundur að selja bækurnar sínar og heldur að hann fái fullt af peningum fyrir það. Það er nefnilega ekki þannig nema að þú heitir Arnaldur eða Yrsa. Flest erum við ekki að fá neitt út úr þessu þótt að við séum með fína sölu.“