Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ríkið borgar sýnin úr farþegum

16.05.2020 - 12:49
Mynd með færslu
Svona leit Leifsstöð út þegar farþegar komu frá norðurhluta Ítalíu um það leyti sem COVID-19 var að byrja. Mynd: RÚV - Bragi Valgeirsson
Ríkið ber kostnað fyrst í stað af sýnatöku úr farþegum á Keflavíkurflugvelli sem koma til landsins 15. júní. Stefnt er að því að hvert sýni kosti ekki meira en 50 þúsund krónur. Hægt verður að taka allt að eitt þúsund sýni á dag úr farþegum.

Framhaldið metið eftir tveggja vikna tilraun

Hildur Helgadóttir forstöðumaður á Landspítala verður formaður verkefnisstjórnar samkvæmt skipunarbréfi heilbrigðisráðherra í fyrradag sem kynnt var á ríkisstjórnarfundi í gær. Í nefndinni verða líka fulltrúar sóttvarnalæknis, ríkislögreglustjóra, Isavia, Landspítalans og lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli. 

Miðað er að sýnatakan á Keflavíkurflugvelli standi í tvær vikur og að síðan verði framhaldið metið. Starfsfólk veirufræðideildar Landspítalans, Lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli og Isavia munu starfa við verkið.

Farþegar rukkaðir ef vel gengur

Kostnaður er töluverður. Forsætisráðherra sagði á þriðjudaginn í viðtali á fréttamannafundi þegar opnun landamærana var kynnt að ekki væri búið að útfæra enn hvort farþegar yrðu að greiða gjald fyrir sýnatökuna eða hvort ríkissjóður myndi standa alfarið undir kostnaðinum: 

„Við sjáum þó fyrir okkur að það gæti verið rétt á meðan þetta verður svona enn á tilraunastigi að ríkissjóður beri þann kostnað en síðar ef vel gefst til að þá verði ráðist í gjaldtöku fyrir þá sem nýta sér þetta. Það er auðvitað ljóst hvað kostnaður við eitt sýni er en hins vegar er umframkostnaður í því að setja upp slíka aðstöðu á Keflavíkurflugvelli,“ sagði Katrín Jakobsdóttir. 

Sýnið kostar 50 þúsund og niðurstaða eftir fimm tíma

Í skipunarbréfi formanns verkefnisstjórnarinnar segir að gert sé ráð fyrir því að heildarkostnaður fyrir hvert sýni skuli ekki vera hærra en 50 þúsund krónur. Og að verkferlar og afköst skuli miðast við allt að 1000 sýni á dag og að sýni skuli send án tafar frá Keflavík á veirufræðideild í Reykjavík og að niðurstaða greiningar á sýni skuli liggja fyrir innan fimm klukkustunda. 

Þá þarf verkefnisstjórnin að móta ferla um samþykki farþega fyrir sýnatöku og notkun rakningaforrits í síma. Og ákveða hvaða kröfur á að gera til vottorða eða rannsóknarniðurstaðna frá öðrum löndum og hvernig þeim yrði framvísað og metin af yfirvöldum hérlendis. 

Ennfremur á verkefnisstjórnin að gera tillögur um framkvæmd þessa verkefnis hjá þeim farþegum sem koma til landsins eftir öðrum leiðum en um Keflavíkurflugvöll. 
Verkefnisstjórnin hefur nauman tíma því áætlun hennar á að verða tilbúin 25. maí.