Önnur landsliðskonan í raðir Selfyssinga

Mynd með færslu
 Mynd: Selfoss

Önnur landsliðskonan í raðir Selfyssinga

16.05.2020 - 17:10
Landsliðskonan Anna Björk Kristjánsdóttir hefur skrifað undir hjá Selfossi um að leika með félaginu í Pepsi Max-deild kvenna í sumar. Anna Björk kemur til félagsins frá hollenska liðinu PSV Eindhoven.

Anna Björk er þrítugur miðvörður sem á 43 A-landsleiki að baki fyrir Íslands hönd. Hún hefur verið orðuð við uppeldisfélag sitt KR síðustu vikur en ljóst að um góðan liðsstyrk er að ræða fyrir Selfyssinga.

Anna Björk varð Íslands- og bikarmeistari í þrígang er hún lék með Stjörnunni á árunum 2009 til 2016. Hún lék þá með Örebro og Limhamn Bunkeflo á þriggja ára tímabili í Svíþjóð áður en hún samdi við PSV í fyrra.

„Um leið og ég fór að tala við þjálfarana og fólkið í kringum liðið á Selfossi þá heyrði ég hvað það er mikill metnaður hérna og það heillaði mig. Það tala allir vel um Selfoss og það eru skýr markmið og mikill uppgangur hjá liðinu. Ég er líka að klára nám í sjúkraþjálfun og fæ tækifæri til þess að vinna við það í Mætti sjúkraþjálfun á Selfossi,“ er haft eftir Önnu Björk í tilkynningu Selfoss.

Anna er önnur landsliðskonan sem semur við Selfoss fyrir komandi tímabil en Dagný Brynjarsdóttir samdi við uppeldisfélag sitt í nóvember eftir fjögurra ára veru hjá Portland Thorns í Bandaríkjunum.

Selfoss varð bikarmeistari í fyrsta sinn í sögu félagsins síðasta sumar og lenti í 3. sæti Pepsi Max-deildarinnar á eftir yfirburðaliðum Vals og Breiðabliks.