Ný heimsmynd rís á tímum kórónaveirunnar

16.05.2020 - 09:00
Mynd með færslu
 Mynd: Geir Ólafsson
Bandaríkin eru hnignandi veldi og Kína rísandi í nýrri heimsmynd sem er að verða til á tímum kórónaveirunnar. Þetta segir Vera Knútsdóttir, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna og Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, sem segir ennfremur að erfitt sé að sjá fyrir hvaða áhrif veiran hefur en að hún ætti að ýta undir meiri alþjóðahyggju.

Gósentíð fyrir samsæriskenningar

Orðið heimsmynd hefur verið notað um hugtakið New World Order eða nýtt heimsskipulag sem heyrist sífellt oftar þessa dagana í tengslum við COVID-19 faraldurinn og áhrif hans á heimsbyggðina. Í kalda stríðinu var hugtakið New World Order notað af þeim sem aðhylltust samsæriskenningar af ýmsu tagi, segir Vera

„Og núna náttúrlega, á þessum tímum kórónuveirunnar er gósentíð fyrir samsæriskenningar og þær eru margar sem koma. Eins og t.d. að Kínverjar hafi búið til þessa veiru til að ráðast á Bandaríkin eða vestræn lönd eða til þess að ná völdum, verða sterkari í heiminum. Þetta sé bara lífefnavopnaárás.

Margar samsæriskenningarnar hafa með Kína og Bandaríkin að gera. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna á sinn þátt í vinsældum þeirra. Einna þekktust er fullyrðingin um að veiran hafi verið  búin til á rannsóknarstofu í Kína. Á vef breska ríkisútvarpsins er bent á það að í Kína hafa komið fram hugmyndir um hið gagnstæða að veiran hafi orðið til í Bandaríkjunum og að bandaríski herinn hafi komið með hana til Wuhan. 

Adding Byelorussian sign in Opera House in accordance with seating chart, May 19. Delegates of fifty nations met at San Francisco between April 25 and June 26, 1945. Working on the Dumbarton Oaks proposals, the Yalta Agreement, and amendments proposed by various Governments, the Conference agreed upon the Charter of the United Nations and the Statute of the New International Court of Justice. The Charter was passed unanimously and signed by all the representatives. It came into force on October 24, 1945, when China, France, the USSR, the United Kingdom, and the United States and a majority of the other signatories had filed their instruments of ratification. 19/May/1945. San Francisco, United States. UN Photo/McLain. www.unmultimedia.org/photo/
 Mynd: United Nations Photos
Fulltrúar 50 þjóðríkja hittust í Óperu húsinu í San Francisco 26. júní 1945 til að skrifa undir stofnskrá Sameinuðu þjóðanna. Myndin er tekin 19. maí þegar sæti þjóðanna voru merkt

Ný heimsmynd varð til eftir seinni heimstyrjöldina

Fimmtíu þjóðríki undirrituðu stofnskrá Sameinuðu þjóðanna  26. júní 1945 í San Francisco. Ný heimsmynd var að rísa úr rústum seinni heimstyrjaldarinnar. Heyra má í fréttum frá þeim tíma eftirvæntinguna og þær væntingar sem bundnar voru við stofnun Sameinuðu þjóðanna. „Þetta er nýtt upphaf, reist á friði, upphaf sem rís í stríðshrjáðum heimi. Stofnskrá sem markar tímamót í sögu mannskyns. Nýir tímar eru framundan. Þetta er leiðin, samstaða, samvinna og varanlegur friður, segir þulur í gamalli fréttamynd.  

Nýja heimsmyndin byggði á samstarfi ríkja og til urðu stofnanir eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, Alþjóðabankinn, Alþjóðaviðskiptastofnunin og Nato, og hugtakið Vesturlönd fæddist.

Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna eru núna 139 og þessi heimsmynd, sem þulurinn lýsir, hefur tekið ýmsum breytingum á þeim 75 árum sem hafa liðið. 

Eftirstríðsáraheimsmyndin tók breytingum

Guðmundur Hálfdánarson prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands segir að gríðarlegar breytingar verði í tveimur stökkum eftir síðari heimstyrjöld. „Í fyrsta lagi strax eftir styrjöldina sjálfa þegar við vorum í kalda stríðinu þar sem Bandaríkin og Sovétríkin eiginlega skiptu upp heiminum. Og Bandaríkin koma og stíga inn í heimsmálin af fullum þunga og verða leiðandi ríki fyrir þetta  „vestræna skipulag“. 

Eftir að kalda stríðinu lauk verður þessi bandaríska eftirstríðsáraheimsmynd ríkjandi í heiminum með alþjóðavæðingu, aukinni samvinnu ríkja, meira flæði fjármagns milli landa og yfirgæfandi alþjóðamarkaðshyggju sem hafi á vissan hátt grafið undan þjóðríkjum. Fyrirtæki verða alþjóðleg og alþjóðlega sinnuð og allt þetta tengist beint hnattvæðingunni. 

Mynd með færslu
 Mynd: wikimedia commons
Alþjóðavæðingunni mótmælt í Seattle, 30. nóvember 1999

Vaxandi þjóðernisstefna

En ekki voru allir sáttir við alþjóðavæðinguna. Mótmæli fóru vaxandi og gátu orðið ansi hörð, eins og t.d. í Seattle í Bandaríkjunum árið 1999 þegar þar var haldinn fundur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Mótmælin stóðu í heila viku.
Guðmundur segir að eftir fjármálakreppuna 2008 hafi greinilega orðið afturhvarf til þjóðernisstefnu fyrri tíma og hún hefur orðið æ meira áberandi undanfarin ár.  

„Við sjáum það bæði í svona popúlískum hægriflokkum í Evrópu, þeirra svona vaxandi fylgi. Það eru ákveðnar efasemdir um Evrópusambandið og framtíð þess. Evran á í vandræðum og síðan með kjöri Donalds Trump í Bandaríkjunum sem virðist vera að reka rothögg á þessa bandarísku sýn.“ 

Áhyggjur Guterres

Áttunda mars, þegar ríki heimsins héldu upp á að 75 ár voru liðin frá því að seinni heimstyrjöldinni lauk, lýsti Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, yfir áhyggjum sínum af ástandi heimsmála í viðtali við breska ríkisútvarpið. 

Vandamálin höfðu hrannast upp áður en faraldurinn hófst, segir Guterres. Alþjóðlegt samstarf hafi aldrei fyrr verið eins slæmt og nú. Öryggisráðið hafi verið óstarfhæft í fjölmörgum deilumálum. Og erfiðlega hefur gengið að sameina fólk í baráttunni við loftslagsbreytingar. „Við þurfum að tryggja að fólk skilji að ógnirnar eru alþjóðlegar, COVID-19 er ein til viðbótar, loftslagsbreytingar voru þegar orðnar vandamál og hryðjuverk einnig. Við verðum að styðja við alþjóðlega samvinnu og leggja áherslu að alþjóðlegar stofnanir ,“ segir Guterres. 

Vera veltir fyrir sér hvað Guterres á við. „Auðvitað er hann að vísa í að Bandaríkin eru að draga sig út úr og draga úr stuðningi við Sameinuðu þjóðirnar. Vissulega er verið að skjóta á ríki sem eru að draga sig meira úr samstarfi og minnka stuðning við Sameinuðu þjóðirnar.“
 

epa08420312 Truckers block Constitution Avenue to highlight their complaints that brokers are taking advantage of the coronavirus COVID-19 pandemic to cut trucker pay south of the White House in Washington, DC, USA, 13 May 2020.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Vörubifreiðastjórar mótmæla við Hvíta húsið í Bandaríkjunum 13. maí vegna þess að laun þeirra voru lækkuð

Áhyggjufullir bandaríkjamenn

Vera bjó í Bandaríkjunum Hún segir að þar sé ákveðin undiralda. Mikil óánægja hafi verið í ákveðnum hópum Bandaríkjamanna. Þeir sem kusu Trump höfðu orðið illa úti í alþjóðavæðingunni þegar störf þeirra voru flutt á brott. Dregið hafi verið úr fjármagni til skóla og menntastofnana í tíð Trumps o.m.fl. 

„Ójöfnuður er bara undiraldan í bandarísku samfélagi og það sem drífur áfram það sem er að gerast þar í hinu pólitíska landslagi og þessum mótmælum sem maður sér þar á götum úti. Undirrótin er ójöfnuður.“  
 
Vera á vini í Bandaríkjunum sem margir hverjir hafa miklar áhyggjur af framtíðinni.

„Ég játa það að flestir vinir mínir eru Demókratar en ég á líka alveg vini sem eru Repúblíkanar sem eiga ekki til aukatekið orð yfir Trump, sem vita ekki í hvorn fótinn þau eiga að stíga.“ 

Einnig sé óánægja með val á frambjóðanda Demókrata. Hvar er Biden, spyr fólk. „Ætti forsetaframbjóðandi ekki að vera núna á þessum tímum að tala af einhverri staðfestu og stefnu og gagnrýna og annað til þess að fá atkvæði. Þannig að hann hefur svona horfið. Fólk veit ekki alveg hvað er að gerast. Sumum finnst þeir búa bara í öðrum raunveruleika bara komin í nýja vídd.“

Mynd með færslu
 Mynd: Geir Ólafsson

Bandaríkin hnignandi ríki en Kína rísandi

Á sama tíma og þetta er að gerast eru vísindamenn um heim allan að taka sig saman og efla samstarf sitt. Núna standi yfir mjög öflugt fjölþjóðlegt samstarf vísindamanna til að finna bóluefni við COVID-19. Pólitískt samstarf sé hins vegar að dala, segir Vera.

„Bandaríkin, sem hafa verið heimsveldið frá lokum kalda stríðsins, eru nú komin á þann stað, svo vitnað sé í stjórnmálafræðikenningar, það er svona hningnandi ríki og Kína er rísandi ríki.“

Bandaríkin höfðu, áður en kórónuveirufaraldurinn kom upp, dregið sig úr samstarfi við Íran. Vera segir að það hafi verið slæmt því þó að gallar hafi verið á þeim samningi hafi samstarfið gengið ágætlega.  
Einnig sé hægt að túlka brottför Breta úr Evrópusamstarfinu sem afturför í fjölþjóðasamstarfi. 

Á sama tíma og dregið er úr samstarfi á einum stað er það að aukast á öðrum vettvangi, til dæmis hjá þessum svokölluðu Brix-löndum, Brasilíu, Rússlandi, Indlandi og Kína. Þetta eru rísandi veldi. 

„Það er mikið samstarf þar á milli og það er að aukast. Það er samstarf líka á milli Afríkuríkja. Þau eru með Afríkubandalagið. Það er ekki eins og að hnignun á einum stað þýði að það verði heilt yfir.“ 

President Donald Trump, left, meets with Chinese President Xi Jinping during a meeting on the sidelines of the G-20 summit in Osaka, Japan, Saturday, June 29, 2019. (AP Photo/Susan Walsh)
 Mynd: AP
Donald Trump forseti Bandaríkjanna og XI Jinping forseti Kína

Aukin viðskipti og tollamúrar  

Breski prófessorinn Michael Clarke segir í viðtali á vef breska ríkisútvarpsins um hina nýju heimsmynd, sem nú sé að verða til, að hún hvíli á þeirri einföldu staðreynd að helmingur mannkyns býr á svæði sem afmarkast af Indlandi, Kína og Suðaustur-Asíu.   

Vera segir að í heimsmyndinni sjálfri sé Kína sem rísandi veld komið með ítök all staðar. „Þeir eru að byggja upp innviði í Afríku og eru þannig að tryggja aðgengi sitt að grunnefnum sem þeir þurfa í framleiðslu. Öllu því sem við erum að panta frá Kína. Við megum ekki gleyma því að við erum ástæða þess að Kína getur vaxið og orðið eins sterkt veldi og það er í dag.“
 
Guðmundur segir að ennþá séu sterk öfl í Bandaríkjunum sem vilja viðhalda alþjóðlegu hlutverki Bandaríkjanna. „Bæði þessu pólitíska hlutverki og þessu efnahagslega. Og það eru auðvitað líka mjög ákveðin öfl í bandarísku efnahagslífi sem horfa á þetta með ákveðinni skelfingu, ef Bandaríkin eru að byggja upp tollamúra og annað slíkt í kringum sig.“ 

epa08376590 An exhausted health worker in protective gear take a rest during a free coronavirus community screening service in Kuala Lumpur, Malaysia, 22 April 2020. Countries around the world are taking increased measures to stem the spread of the SARS-CoV-2 coronavirus which causes the COVID-19 disease.  EPA-EFE/AHMAD YUSNI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Úrvinda heilbrigðisstarfsmaður

„You aint seen nothing yet“ 

Hnökrarnir sem hafa verið í samskiptum Kína og Bandaríkjanna séu svolítið ógnvekjandi, segir Guðmundur.
„Kínversk stjórnvöld eru mjög ákveðin í því að Kína verði að stórveldi og það er bara stefnt að því leynt og ljóst. Og það svona stefnir í ákveðna samkeppni á milli Bandaríkjanna og Kína en það fer bara svolítið mikið eftir því hvernig þetta þróast á næstu árum sem er útilokað að segja til um.“ 
 
Vera:„Ég held að með áhrifin sem eiga eftir að koma til langs tíma þá sé hægt að vísa í Ólaf Ragnar sem sagði, „you aint seen nothing yet“. Það á eftir að koma ennþá meiri skellur vegna þess að við vitum ekki hvað þetta ástand verður lengi.“ 
 
Guðmundur:„Ef við horfum bara á þetta stóra verkefni sem við stöndum frammi fyrir núna, að vinna bug á þessari veiru sem er að herja á okkur, þá er ljóst að það gerist ekki nema með mjög öflugu samstarfi.“ 
  
Samstarfi bæði á sviði vísinda og í stjórnmálum. Mögulega verði veiran með okkur næstu tvö árin. Efnahagslífið þurfi að taka við sér og ferðalög að hefjast aftur. Það sé ekki hægt að gera nema í alþjóðlegu samhengi.  

„En um leið þá er þetta álag sem hefur verið á þessu kerfi, sem að sumu leyti við getum rakið til þessara pólitísku hræringa sem hafa átt sér stað í Bandaríkjunum, þetta leiðandi ríki síðust áratugina og hefur raunverulega t.d. fjármagnað að talsverðu leyti stofnanir Sameinuðu þjóðanna. Núna eru þau að gefa upp á bátinn þetta hlutverk sitt. Þá bendir allt til þess að Kína sé tilbúið til að hlaupa í það skarð sem Bandaríkin skilja eftir sig.“ 

Mynd með færslu
MERS veira. Mynd: Wikimedia commons

Veiran ætti að ýta undir alþjóðahyggju

Ekki er gott að segja hvað gerist, segir Guðmundur. Ef aftur verði breyting á stjórnarfari í Bandaríkjunum geti þessi vestræna blokk hugsanlega komið ósködduð út úr þessum hremmingum. 

Ef lokanirnar verða áfram þá er þetta alþjóðlega efnahagskerfi í algerum lamasessi. 

„Og ef það verður þá er auðvitað ekki ljóst hvaða áhrif það hefur á þetta pólitíska kerfi. Sérstalega þegar áhrifin fara að verða mjög sterk í fátækari hlutum heimsins. Þar sem lönd eiga mun erfiðara að takast á við þennan efnahagslega vanda þegar hann fer að láta til sín taka.“  

Það eina sem virðist nokkuð öruggt er að heimurinn stendur á tímamótum. „Efnahagskreppur hafa alltaf áhrif á alþjóðakerfið. Það sáum við eftir 2008 og eftir síðari heimsstyrjöld og það munum við þá sjá núna líka. 

„En ef það tekst að vinna bug á þessum sjúkdómi tiltölulega fljótt og koma hjólum efnahagslífsins af stað aftur er ekkert víst að áhrif þessarar veiru verði í sjálfu sér allt of mikil. En þá ætti hún samt sem áður að ýta undir meiri alþjóðahyggju vegna þess að við getum ekki unnið á svona, alþjóðakerfið vinnur best saman að leysa svona vandamál.“

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi