Líkja kosningunum við bílslys eftir hraðakstur

16.05.2020 - 14:51
epa08062737 British Liberal Democrat Party leader Jo Swinson (C) takes apart in an election campaign in Wimbledon in London, Britain, 11 December 2019. Britons go to the polls on 12 December in a general election.  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA - EPA-EFE
Nefnd á vegum Frjálslyndra demókrata sem var skipuð til að rannsaka ósigur flokksins í bresku þingkosningunum í desember fer hörðum orðum um kosningabaráttu flokksins. Kosningunum er líkt við bílslys eftir hraðakstur og fundið að mörgu sem var gert í kosningabaráttunni. Þannig hafi markið verið sett á að vinna stórsigur en aldrei mótuð raunveruleg stefna um hvernig það ætti að takast. Niðurstaðan var að flokkurinn missti helming þingsæta sinna, þar á meðal sæti Jo Swinson, formanns flokksins.

Skýrslan var birt á vef Frjálslyndra demókrata í gær. Hún segir söguna af margvíslegum mistökum sem voru gerð í aðdraganda kosninga þar sem Frjálslyndir demókratar vonuðust til að vinna einn sinn stærsta sigur fyrr og síðar. Um það bil einum og hálfum mánuði fyrir kosningar mældist flokkurinn með litlu minna fylgi en Verkamannaflokkurinn. Þá vonuðustu flokksmenn til að bæta við sig fjölda þingsæta.

Skýrsluhöfundar segja að flokkurinn hafi ætlað sér of mikið. Stefnan hafi verið sett á að berjast um fjölda þingsæta, mun fleiri en hann hafði fjármuni, mannskap og skipulag til að ráða við. Kosið er í einmenningskjördæmum í Bretlandi, mörg þeirra hafa verið í höndum sömu flokka áratugum saman meðan meiri spenna ríkir um úrslit í öðrum. Því er misjafnt hversu mikla vinnu og peninga flokkarnir setja í baráttuna í hverju kjördæmi fyrir sig.

epa08062989 Liberal Democrats party leader Jo Swinson during a visit to a Volunteer Hub while campaigning on the general elections, in London, Britain, 11 December 2019. Britons go to the polls on 12 December 2019 in a general election.  EPA-EFE/AARON CHOWN / POOL
 Mynd: EPA - EPA-EFE

Skýrsluhöfundar segja að ákvarðanatöku hafi verið mjög ábótavant. Ekki hafi verið farið fyllilega eftir skipuriti, of mikil völd færst á hendur Jo Swinson, nýkjörnum formanni, og kjarnanum í kringum hana, og samskiptaleiðir orðið of langar. 

Tvær vondar leiðir voru í boði til að hámarka árangur, segja skýrsluhöfundar. Önnur hefði verið að leggja höfuðáherslu á að koma í veg fyrir Brexit. Þá hefði flokkurinn þurft að gefa eftir baráttu í kjördæmum þar sem þingmenn Verkamannaflokksins sem voru andvígir Brexit voru í framboði. Hin leiðin hefði verið að leggja höfuðáherslu á að fjölga þingmönnum Frjálslyndra demókrata óháð öllu öðru, sem hefði hins vegar getað leitt til útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu án samnings. Höfundar skýrslunnar segja að hvorug leiðin hafi verið valin heldur hafi forysta flokksins talið sér trú um að hún gæti einfaldlega unnið kosningarnar. Því megi lýsa kosningabaráttunni þannig að öllu hafi verið veðjað á að flokkurinn gæti orðið sigurvegari kosninganna og komið í veg fyrir Brexit. Það hafi ekki gengið eftir.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV