Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Hástemmt dramarokk

Mynd með færslu
 Mynd: Spartan Records - VAR

Hástemmt dramarokk

16.05.2020 - 11:20

Höfundar

The Never​-​Ending Year er ný breiðskífa eftir VAR, sveit sem á varnarþing suður með sveit en stefnir nú í víking. Var eiga plötu vikunnar á Rás 2 að þessu sinni.

Hljómsveitin VAR er sjö ára gömul og var upphaflega sólóverkefni Júlíusar Óttars Björgvinssonar. Eiginkona hans, Myrra Rós, slóst fljótlega í hópinn en í dag er sveitin skipuð Júlíusi og þeim Agli Björgvinssyni, Arnóri Jónassyni og Sigurði Inga Einarssyni. Stuttskífur og stök lög hafa komið út alla tíð og sveitin hefur leikið nokkuð á erlendri grundu, m.a. í Evrópu, Bandaríkjunum og Japan. Þessi fyrsta breiðskífa er gefin út af Spartan Records í Seattle á heimsvísu en af Rimeout Recordings í Japan. Var það Eiður Steindórsson sem sá um upptökuhliðina.

Gamlar hljóðmyndir

Tónlist VAR mætti lýsa sem einslags síð-síðrokki með dassi af skóglápi („shoegaze“). Hljóðheimurinn á mikið undir þeim hljóðmyndum sem Mogwai og áþekkar sveitir máluðu undir lok tíunda áratugarins. Áhersla á lágværan ljúflingsbrag sem er síðan brotin upp með sprengikrafti og hávaða. Sigur Rós er þá greinileg fyrirmynd líka, veri það í söngstíl eða almennri áferð. Kynningarljósmyndir, umslagshönnun og lagatitlar („By the Ocean“, „Drowning“, „Breathing“), allt fellur þetta í sömu átt.  

Þetta er skapalónið, og útfærsla þeirra félaga er bara giska áhrifarík þannig lagað, framfærsla öll hin sannferðugasta. Hér er allt „rétt“ m.ö.o.. Flutningur er fyrsta flokks, dramatískt klifur, surgandi gítarar og lágstemmdir kaflar, allt er þetta upp á punkt og prik. Ég vil sérstaklega nefna trommuleikinn, sem er yfirmáta kraftmikill út í gegn og eiginlega bara heillandi.

Þessi stíll sem VAR er að vinna með er gjörsamlega geirnegldur af hennar hálfu. En að sama skapi fer ekki mikið fyrir frumlegheitunum. Sem er ekki sök í sjálfu sér, en lagasmíðar eiga það til að vera full fyrirsjáanlegar og óspennandi, komnar yfir síðasta söludag í raun. Maður hefur heyrt þetta allt saman áður. The Never​-​Ending Year er of rígbundin á klafa áðurnefndra áhrifavalda, staðreynd sem gerir VAR einfaldlega að „einum af þessum hljómsveitum.“

Ýmislegt í stöðunni

En það er von. Það er margt með VAR nefnilega, maður sér og finnur að menn eru metnaðarfullir og platan er virkilega heildstæð, hún gengur upp og rennslið er gott frá fyrsta tóni til hins síðasta. Mannskapurinn í VAR-fleyinu hefur alla burði til að brjóta undir sig nýjar lendur og skapa eitthvað eftirtektarvert, þó að það hafi ekki gengið eftir í þessari umferð. Ég ætla því að leyfa mér að vera vongóður um næsta skammt. Þetta er alveg hægt, en betur má ef duga skal.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Einlægt, óskrifað blað

Popptónlist

Einlægt nútímapopp

Tónlist

Einlægt og ástríðufullt

Popptónlist

Dramatískt og einlægt