Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Handtekinn fyrir þjóðarmorðin í Rúanda

16.05.2020 - 13:02
FILE - In this Saturday, April 5, 2014 file photo, family photographs of some of those who died hang in a display in the Kigali Genocide Memorial Centre in Kigali, Rwanda. Officials said Thursday, Dec. 10, 2015 that 53-year-old Rwandan Ladislas Ntaganzwa,
Fjölskyldumyndir af hluta fórnarlamba þjóðarmorðanna. Mynd: AP
Franska lögreglan hefur handtekið Felicien Kabuga, einn grunaðra lykilmanna í þjóðarmorðunum í Rúanda fyrir ríflega aldarfjórðungi. Sameinuðu þjóðirnar fagna handtökunni.

Í þjóðarmorðunum, sem áttu sér stað á hundrað daga tímabili í Rúanda árið 1994, var um 800 þúsund manns, bæði af ættbálki tútsa og hófsamra húta, bókstaflega slátrað. Öfgasinnaðir Hútar voru þar aðallega að verki en morðunum linnti ekki fyrr en stjórn þeirra var steypt af stói. Lengi áður  höfðu heyrst sögur af ofbeldisverkum án þess að Vesturlönd eða Sameinuðu þjóðirnar sáu ástæðu til aðgerða.

Alls voru níu dæmdir fyrir sinn þátt í þjóðamorðunum árið 1997 en Felicien Kabuga, sem talinn var hafa fjármagnað morðin, var einn af fáum sem ekki hafði verið réttað yfir ennþá þar sem hann fannst ekki - þar til í morgun. Í tilkynningu sem franska lögreglan sendi frá sér kemur fram að hann hafi verið handtekinn í úthverfi Parísar, þar sem hann hafði verið í felum undir fölsku nafni með aðstoð barna sinna. 

Handtökunni hefur verið fagnað víða í dag. Serge Brammretz sagsóknari hjá alþjóðaglæpadómstólnum í Haag sagði að þetta sýnd að þeir sem bæru ábyrgð á þjóðarmorðum gætu ekki flúið undan réttvísinni þó að tuttugu og sex ár væru liðin frá glæpum þeirra. Kabuga, sem er 84 ára gamall, verður væntanlega framseldur til Haag þar sem réttað verður yfir honum.

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV