Gæti kostað 150 milljónir að gera við Skálholtskirkju

16.05.2020 - 13:03
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Það gæti kostað á bilinu 100 til 150 milljónir króna að gera við húsnæði Skálholtskirkju. Þetta segir Kristján Björnsson vígslubiskup. Hann sendi Kirkjuráði bréf um síðustu mánaðamót, þar sem hann lýsti neyðarástandi vegna húsnæðis Skálholtskirkju. Fréttastofa ræddi við Kristján í hádeginu. 

„Það stíflaðist og bilaði þakrenna, svo ómerkilegt sem það er. Það safnaðist djúpt vatn uppi á klukkulofti. Það var mjög hættulegt gagnvart öllum verðmætum sem eru hér í kirkjunni. Bæði hér niðri í helgidómnum og svo er hér fyrir neðan klukkuhæðina mjög verðmætt bókasafn á tveimur hæðum. Það lak niður á þessar hæðir báðar töluvert vatn en sem betur fer ekkert á bækurnar sjálfar,“ sagði Kristján. 

Kristján segir að ástandið á kirkjunni hafi ekki verið gott undanfarið og hann hafi sjálfur spurt sig að því þegar hann kom í Skálholt fyrir tveimur árum hvers vegna bókasafnið væri á þessum stað. „Ég er búinn að vinna að því að fá þetta safn flutt og forveri minn og forveri þar á undan hafa verið að reyna að vinna í því. Það er bara eins og gengur, skortur á fjármagni yfirleitt og kirkjan sársvelt eftir bankahrunið fyrst og nú eru erfiðir tíma,“ segir Kristján. Hann hafa ákveðið að nota stóru orðin í erindi sínu til kirkjunnar, enda hafi þau átt vel við – að það væri neyðarástand. 

Kristján segir að það kosti á bilinu 100 til 150 milljónir að gera við húsnæðið. Þakið sé ónýtt, enda sé komið 50 til 60 ár síðan það var lagt og steinflísar eins og eru þarna þurfi að endurnýja á 50 til 60 ára fresti. „Það er einfaldlega kominn tími á það,“ segir Kristján.  
 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV