Braust inn á safn og tók sjálfsmynd með risaeðlu

16.05.2020 - 04:34
Maður sem braust inn í ástralska safnið í Sidney og tók sjálfsmynd með risaeðlu.
 Mynd: Lögreglan í Nýju suður Wales - skjáskot
Lögreglan í Ástralíu leitar nú að manni sem braust inn í ástralska safnið í Sidney. Maðurinn stal kúrekahatti og tók sjálfsmynd af sér með beinagrind af risaeðlu.

Innbrotsmaðurinn komst inn með því að klífa vinnupalla við safnið. Það hefur verið lokað síðan í fyrra þar sem unnið er að viðgerðum og endurnýjun. Samkvæmt lögreglunni í Nýju Suður Wales rölti hann um safnið í um fjörutíu mínútur og virtist njóta sín. 

Hann náðist á mynd í öryggismyndavélakerfi safnsins og sást þar taka sjálfsmyndir af sér á síma með höfuðið í kjaftinum á beinagrind af grameðlu. Hann rótaði líka í skápum safnsins og reyndi að komast inn í læst rými. Hann greip þá kúrekahatt sem er talinn úr eigu starfsmanns safnsins og hafði með sér þegar hann yfirgaf safnið. 

Nú er hans leitað að lögreglunni þar fyrir innbrot og þjófnað. Samkvæmt henni skemmdust þó engir safnmunir við atvikið.

elsamd's picture
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi