17 ára GR-ingur með forystu eftir fyrri daginn

Mynd með færslu
 Mynd: S. Elvar Þórólfsson - GSÍ

17 ára GR-ingur með forystu eftir fyrri daginn

16.05.2020 - 18:45
Dagbjartur Sigurbrandsson, 17 ára kylfingur úr Golfklúbbi Reykjavíkur, leiðir eftir fyrri dag ÍSAM-mótsins í golfi sem fram fer á Hlíðarvelli í Mosfellsbæ. Tveir hringir voru leiknir í dag en Íslandsmeistarinn Guðrún Brá Björgvinsdóttir er með forystu í kvennaflokki.

Þar sem íslensku atvinnukylfingarnir geta ekki keppt erlendis um þessar mundir vegna COVID-19 var þeim boðið að taka þátt í ÍSAM-heimslistamótinu sem er alla jafna fyrir áhugakylfinga til að vinna sér inn stig á heimslista áhugamanna. Tveir hringir voru spilaðir í dag en mótinu lýkur með einum hring á morgun.

Atvinnukylfingarnir Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, Valdís Þóra Jónsdóttir og Guðrún Brá Björgvinsdóttir, sem ekki hafa spilað á sama móti hér á landi frá árinu 2016, eru saman í ráshópi og hófu keppni klukkan rúmlega níu í morgun, en alls eru níu kylfingar í kvennaflokki með á mótinu.

Eftir fyrsta hring var Guðrún Brá með fjögurra högga forystu á fjórum höggum undir pari en Ólafía Þórunn var þá á parinu og Valdís Þóra á einu höggi yfir pari. Guðrún Brá gerði sér lítið fyrir og setti vallarmet á fyrsta hringnum.

Guðrúnu fataðist lítillega flugið á síðari hringnum sem hún fór á tveimur höggum yfir pari. Hún heldur þó forystunni á tveimur höggum undir pari, tveimur höggum á undan Ólafíu Þórunni sem fór báða hringina á pari. Þrefaldur skolli og skrambi lögðu grunninn að strembnum síðari hring Valdísar Þóru sem er á átta höggum yfir pari eftir hringina tvo. Valdís er fjórða en Ragnhildur Kristinsdóttir úr GR er þriðja á þremur höggum yfir pari.

1 Guðrún Brá Björgvinsdóttir GK -2
2 Ólafía Þórunn Kristinsdóttir GR Par
3 Ragnhildur Kristinsdóttir GR +3
4 Valdís Þóra Jónsdóttir GL +8
5 Berglind Björnsdóttir GR +10

 

Tveir áhugamenn efstir

Í karlaflokki fór atvinnukylfingurinn Ólafur Björn Loftsson manna best af stað. Hann leiddi mótið á fjórum höggum undir pari eftir fyrsta hring en annar var áhugamaðurinn Viktor Ingi Einarsson aðeins höggi á eftir Ólafi.

Sú staða átti þó eftir að breytast. Hinn 17 ára gamli Dagbjartur Sigurbrandsson úr GR fór síðari hringinn á fjórum höggum undir parinu eftir að hafa verið tveimur undir á fyrri hringnum. Hann er því á sex höggum undir pari í heildina og kom sá árangur honum í forystu í karlaflokki fyrir síðasta hring mótsins á morgun. Annar áhugamaður, Björn Óskar Guðjónsson úr GM, er tveimur höggum á eftir Dagbjarti í öðru sæti eftir að hafa farið síðari hring dagsins á þremur höggum undir pari. 

Það gekk á ýmsu hjá atvinnukylfingunum í karlaflokki í dag. Á seinni hringnum lék Axel Bóasson fimmtu braut vallar á tíu höggum, fimm yfir pari brautar, áður en hann fékk sex fugla og einn skolla á holunum 13 sem eftir stóðu. Hann fór síðari hringinn á pari eftir að hafa leikið þann fyrri á tveimur höggum undir. Andri Þór Björnsson lék sömuleiðis fyrri hringinn á tveimur undir og þann síðari á pari og eru þeir því jafnir ásamt áhugamanninum Kristófer Orra Þórðarsyni og Ólafi Birni Loftssyni í 3.-6. sæti en Ólafur lék síðari hringinn á tveimur höggum yfir pari.

Guðmundi Ágústi Kristjánssyni gekk einnig illa á fimmtu braut vallar en hann fékk skramba á fyrri hringnum og þrefaldan skolla á þeim síðari. Í heildina lék hann á pari og situr í 8.-14. sæti rétt eins og Bjarki Pétursson.

Haraldur Franklín Magnús lék þá fyrri hring dagsins á tveimur höggum yfir pari þrátt fyrir að fá tvo erni á hringnum. Þann síðari fór hann á pari og er í 16.-18. sæti á tveimur yfir pari í heildina.

1 Dagbjartur Sigurbrandsson GR -6
2 Björn Óskar Guðjónsson GM -4
3= Kristófer Orri Þórðarson GKG -2
3= Axel Bóasson GK -2
3= Andri Þór Björnsson GR -2
3= Ólafur Björn Loftsson GKG -2

Hér má sjá heildarstöðu mótsins eftir fyrri tvo hringina.