Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vilja að spilakassar verði áfram lokaðir

15.05.2020 - 11:50
Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
Samtök áhugafólks um spilafíkn segja að samkvæmt könnun sem þau létu gera sé mikill stuðningur sé í samfélaginu við að spilakassar verði lokaðir til frambúðar.

Spilakössum Íslandsspila og Happdrættis Háskóla Íslands var lokað 20. mars vegna COVID-19. Íslandsspil, sem eru í eigu Rauða krossins, Landsbjargar og SÁÁ, fengu að opna sína spilakassa aftur í byrjun maí þegar slakað var á samkomubanninu.

Í tilkynningu kemur fram að samkvæmt viðhorfskönnun um spilakassa og spilasali á Íslandi, sem Gallup vann fyrir samtökin, sé mikill meirihluti þáttakenda andvígur því að starfsemi í almannaþágu sé fjármögnuð með spilakössum.  

Haft er eftir Ölmu Hafsteins, formanni Samtaka áhugafólks um spilafíkn, í tilkynningunni að jákvæðar afleiðingar lokana spilakassa hafi sýnt sig í samkomubanninu.

„Þegar spilakössunum var lokað í upphafi samkomubannsins bárust fréttir af spilafíklum sem hættu að spila og náðu betri tökum á lífi sínu. Það voru okkur því mikil vonbrigði þegar Íslandsspil sf. ákváðu að opna kassana á ný þann 4. maí,“ segir Alma.