Uppsagnir hjá HSU „skammarleg ákvörðun“

Mynd með færslu
Vestmannaeyjar Mynd: RÚV
Til stendur að segja upp átta starfsmönnum sem sinna ræstingum á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum og bjóða út ræstingar á stofnuninni. Bæjarráð Vestmannaeyja mótmælir þessu harðlega. Formaður BSRB segir áformin skammarleg.

Eyjar.net greindu frá þessu í gær.

Kaldar kveðjur í ástandinu sem ríkir

Bæjarráð Vestmannaeyja fjallaði um málið á fundi sínum í gær. Framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, að undanskildum forstjóra, mætti á fund ráðsins og gerði þar grein fyrir áhrifum af ákvörðun yfirstjórnarinnar um aðkeypta ræstingu á stofnuninni. 

„Það er nöturlegt til þess að hugsa að á sama tíma og atvinnuleysi eykst á Íslandi í kjölfar heimsfaraldurs Covid, skulu forsvarsmenn HSU áforma að segja upp starfsfólki í ræstingu við stofnunina í Vestmannaeyjum, sem unnið hefur undir miklu álagi á undanförnum mánuðum. Það eru kaldar kveðjur í ástandinu sem ríkir í samfélaginu á sama tíma og sveitarfélagið hefur markvisst unnið að því að tryggja störf og koma til móts við bæjarbúa, t.a.m. með frestun gjaldheimtu. Þar að auki hafa aðgerðapakkar ríkisstjórnarinnar miðað að því að verja störf, “ einkum og sér í lagi kvennastörf, segir í bókun bæjarráðsins. 

Bæjarráðið skorar eindregið á yfirstjórn HSU að draga fyrirhuguð áform til baka tafarlaust. 

Mynd með færslu
 Mynd: BSRB
Sonja Ýr, formaður BSRB.

Krefjast þess að áformin verði dregin til baka

BSRB hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins. Þar kemur fram að stéttarfélögum hafi verið tilkynnt um að fyrirhugað sé að leggja niður starfsemi við ræstingar og fara í útboð á þjónustunni á næstu vikum. BSRB mótmæli harðlega þeim áformum. 

„Það er skammarleg ákvörðun að segja upp starfsfólki sem hefur lagt líf og heilsu að veði í framlínunni í baráttunni við kórónaveiruna undanfarnar vikur,“ er haft eftir Sonju Ýr Þorbergsdóttir, formanni BSRB, í yfirlýsingunni. 

Gríðarlegt álag hafi verið á þessu starfsfólki, líkt og öðru starfsfólki innan heilbrigðisþjónustunnar. Nú þegar mikilvægi þeirra starfa ættu að vera öllum ljós ættu stjórnendur stofnunarinnar að leggja sig fram við að bæta kjör þessa láglaunahóps í stað þess að segja honum upp. 

„Þetta eru kaldar kveðjur frá yfirstjórn stofnunarinnar og við krefjumst þess að þessi ákvörðun verði dregin til baka. Það er óásættanlegt að þegar stofnanir grípa til hagræðingaaðgerða sé fyrst horft til tekjulægsta hópsins,“ segir Sonja.

Hún segir jafnframt að málið verði rætt á fundi hennar með forsætisráðherra á mánudag og að óskað hafi verið eftir fundi með heilbrigðisráðherra til að ræða starfsöryggi og starfsumhverfi starfsfólks heilbrigðisstofnana. 

Sífelld krafa um hagræðingu

Í yfirlýsingu frá HSU segir að innan heilbrigðisgeirans sé sífelld krafa um betri verkferla, uppfærðar verklagsreglur og hagræðingu á sama tíma og gæta þurfi aðhalds í rekstri. Það eigi ekki síst við á þessum erfiðu tímum sem stofnunin hafi gengið í gegnum með tilheyrandi kostnaði. Allir þættir rekstrar stofnana á heilbrigðissviði verði teknir til endurskoðunar með reglubundnum hætti og ræstingar og þrif séu þar ekki undan skilin. Þá segir stofnunin að engum starfsmanni við ræstingar og þrif hafi verið sagt upp og ekki sé útlit fyrir að slíkt gerist. 

Yfirlýsing frá HSU vegna fréttar um uppsagnir

Innan heilbrigðisgeirans er sífelld krafa um betri verkferla, uppfærðar verklagsreglur og hagræðingu og á sama tíma að gæta aðhalds í rekstri.  Það á ekki síst við á þessum erfiðu tímum sem við höfum verið að fara í gegnum með tilheyrandi kostnaði. Til að skoða þessa þætti eru allir þættir rekstrar stofnana á heilbrigðissviði teknir til endurskoðunar með reglubundnum hætti.  Ræstingar og þrif eru þar ekki undan skilin.  Engum starfsmanni við ræstingar og þrif hefur verið sagt upp og ekkert útlit er fyrir að slíkt gerist.

Fréttin var uppfærð eftir að yfirlýsing barst frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands. 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi