Umtalsverður samdráttur í bandarísku efnahagslífi

15.05.2020 - 15:59
epa08374443 Oil pump jacks of the Inglewood Oil reserve function amid the coronavirus pandemic in Los Angeles, California, USA, 20 April 2020. US crude oil prices went negative on 20 April, as demand disappears due to lockdown measures in place due to the coronavirus pandemic.  EPA-EFE/ETIENNE LAURENT
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Verulegur efnahagssamdráttur varð í Bandaríkjunum í apríl. Vísitala iðnaðarframleiðslu hefur aldrei fallið jafn mikið á einum mánuði frá því að hún varð til fyrir rúmlega einni öld.

Seðlabanki Bandaríkjanna greindi frá því í dag að iðframleiðsla í apríl hefði dregist saman um 13,8 prósent frá því í mars og 18 prósent borið saman við apríl í fyrra. Vísitala iðnaðarframleiðslu lækkaði um 11,2 prósent. Hún hefur aldrei lækkað jafn mikið frá því að hún varð til fyrir 101 ári. Lokun fyrirtækja vegna COVID-19 farsóttarinnar hafði mest áhrif í olíuiðnaði og bílaframleiðslu. Verð á olíu og gasi lækkaði um 28 af hundraði. Fara þarf aftur til ársins 1972 til að finna sambærilega lækkun.

Áhrifa aðgerða til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar gætti einnig í viðskiptum. Smásala í apríl dróst saman um 16,4 prósent frá mánuðinum á undan, sem er fordæmalaus samdráttur á einum mánuði og mun meiri en hagfræðingar höfðu reiknað með. Sala á fatnaði, húsgögnum, raftækjum og öðrum tækjum dróst mest saman, að því er kom fram í frétt frá viðskiptaráðuneytinu í Washington. Eldsneytissala minnkaði um 28 prósent.

Nánast einu jákvæðu tíðindin voru í netverslun. Hún jókst um tólf prósent frá því í apríl í fyrra.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV