Þjóðverjar og Skandinavar vilja koma með Norrænu

15.05.2020 - 12:50
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Þjóðverjar og Skandinavar sýna nú aukinn áhuga á að koma til Íslands með ferjunni Norrænu. Framkvæmdastjóri Smyril Line segir þetta hafa gerst um leið og tilkynnt var að frá 15. júní gætu ferðamenn sloppið við sóttkví með skimun og fleiri ráðstöfunum.

„Strax eftir fréttirnar á þriðjudaginn frá ríkisstjórn Íslands, byrjaði síminn að hringja og við finnum fyrir því á skrifstofunni okkar í Færeyjum og í Þýskalandi líka. Þannig að fólk er að fylgjast með fréttum, hefur áhuga á Íslandi og við reynum að upplýsa þá sem hafa áhuga um hvað þarf að gera,“ segir Linda Björk Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri Smyril Line á Íslandi.

Norræna siglir frá Hirtshals í Danmörku til Seyðisfjarðar í hverri viku með viðkomu í Færeyjum. Færeyingar mega nú koma til Íslands með Norrænu án þess að fara í sóttkví. Það sama gildir ekki þegar þeir snúa heim. „Eins og staðan er í dag þurfa þeir að fara í sóttkví þegar þeir koma frá Íslandi. Lögmaður Færeyinga var með fund í gær. Þeir voru búnir að lýsa því yfir að landamærin yrði lokuð allavega fram yfir júní. En nú boðaði hann að þetta yrði endurskoðað og hann kæmi með nýjar fréttir nú fyrir mánaðamótin. Þannig að svo framarlega sem við höldum áfram að sýna svona flottan feril og fáir sem smitast, þá eru líkur á að Færeyingar horfi til að þeir geti opnað til Íslands,“ segir Linda.

Bíða eftir því að Danmörk hleypi túristum í gegn

Síðustu ár hafa Þjóðverjar verið duglegir að nýta sér Norrænu til að koma til Íslands með húsbíla sína. Þeir þurfa hins vegar að komast í gegnum Danmörku sem hleypir nú almennum ferðamönnum ekki í gegn. Linda segir að hægt sé að komast í gegn með leyfi frá sendiráði ef ferðalagið er nauðsynlegt.  Þýskaland hafi lýst yfir vilja til að opna yfir til Danmerkur í dag, 15. maí enda eigi margir Þjóðverjar sumarhús í Danmörku. Danmörk hefur enn ekki gefið grænt ljós en Linda segir að þar sé nú rætt um að flýta ákvörðun um tilslakanir vegna þrýstings frá Evrópusambandinu.

Nú er stóra spurningin hvernig skimun verður framkvæmd, hve löng bið verður eftir niðurstöðum og hvort slíkt fælir fólk frá ferðalögum. Mögulega liggur tækifæri í því að fá smit greinist á Íslandi. „Allt okkar sölukerfi er að upplýsa fólk um hvað þarf og hverjar takmarkanirnar eru. Þannig að við segjum bara verið velkomin. Við ætlum líka að segja velkomnir Íslendingar til Færeyja og svo auðvita Færeyingar til Íslands. Nú er kominn tími til að nágrannaþjóðirnar heimsæki hvor aðra.“

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV