Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Samþykkja smáhýsi í Hlíðunum fyrir heimilislausa

smáhýsi fyrir heimilislaust fólk
Smáhýsi fyrir heimilislaust fólk. Mynd úr safni. Mynd: Eddi Jónsson - RÚV
Borgarráð samþykkti í gær að tveimur smáhýsum fyrir heimilislausa verði komið fyrir á lóð á mörkum Skógarhlíðar og Hringbrautar. Í tilkynningu frá borginni segir að reiturinn sem húsin verði á sé við jaðar íbúabyggðar, þau verði skermuð af til að tryggja hljóðvist og að settur verði gróður í kring til að skapa skjól og betri ásýnd.

Tillagan var auglýst fyrr í vetur og barst fjöldi athugasemda, bæði frá íbúum og Íbúaráði miðborgar og Hlíða. Fram kemur í fundargerð að þrír hafi sent tölvupóst og ekki gert athugasemdir við þessar fyrirætlanir.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna fögnuðu fyrirhugaðri uppbyggingu nýrra smáhýsa í borginni með bókun þess efnis á fundinum í gær. Þar segir að verkefnið verði undir eftirliti velferðarsviðs sem sé með sérhæfða þjónustu og teymi fyrir þau sem þar muni búa.

Kolbrún Baldursdóttir, áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins, sagði í sinni bókun að erfitt hafi verið að finna smáhýsunum stað í borgarlandinu og að það sé áhyggjuefni. „Hér er verið að búa til svæði fyrir smáhýsi á túni sem borgin á og er nú ekki notað í annað. Þetta virðist vera góð breyting á nýtingu og ekki er betur séð en að þetta sé góður staður fyrir smáhýsin.“  Smáhýsi sem þessi sé hægt að fjarlægja með stuttum fyrirvara sé þess nauðsynlega þörf, til dæmis ef Vegagerðin telji sig þurfa meira rými fyrir vegaframkvæmdir. Sömuleiðis megi fjarlægja fyrirhugaðar manir. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarráði sátu hjá við afgreiðslu málsins.

Í tilkynningu borgarinnar segir að unnið sé í anda hugmyndafræðinnar „Húsnæði fyrst“. Hún byggist á því að lykilatriði til að fólk nái bata sé að það hafi þak yfir höfuðið. Mjög mikil þörf sé á slíkum húsum á höfuðborgarsvæðinu.

Vettvangs- og ráðgjafarteymi velferðarsviðs borgarinnar þjónustar fólkið sem kemur til með að búa í smáhýsunum og tryggir hreinlæti og þrifnað við húsin. Þá segir í tilkynningunni að úthlutun í smáhýsi veiti íbúum þess öruggt skjól allan daginn í stað þess að þeir þurfi að leita í neyðarskýli nótt eftir nótt. 

Velferðarsvið borgarinnar hefur óskað eftir fleiri lóðum fyrir smáhýsi sem búsetuúrræði fyrir skjólstæðinga sína. Það er á hendi umhverfis-og skipulagssviðs að útvega lóðir.