Kostnaður við sýnatöku allt að 50 milljónir á dag

15.05.2020 - 18:59
epa08418916 A health worker wearing protective gear collects a nasopharyngeal swab sample from a senior high school student in Nicosia, Cyprus, 13 May 2020. Schools across Cyprus have been closed since 13 March as a precaution against the spread of the SARS-CoV-2 coronavirus causing the COVID-19 disease.  EPA-EFE/KATIA CHRISTODOULOU
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Heildarkostnaður við sýnatöku ferðamanna sem koma til landsins eftir 15. júní gæti verið allt að 50 milljónir á dag. Ekki liggur fyrir hver ber þann kostnað.

Heilbrigðisráðherra hefur skipað verkefnisstjórn sem á að undirbúa framkvæmd við sýnatöku og greiningar á COVID-19 meðal farþega sem koma til landsins eftir 15.  júní. Gert er ráð fyrir að hægt verði að greina allt að þúsund sýni á dag og að niðurstaða liggi fyrir innan fimm klukkustunda. Stefnt er að því að heildarkostnaður við hvert sýni verði ekki meiri en 50 þúsund. Það gerir um 50 milljónir á dag fyrir þúsund sýni. Óvíst er hver ber þann kostnað.

Ferðafólk getur farið í sóttkví hér á landi

Þeir sem ekki vilja fara í sýnatöku þurfa að fara í tveggja vikna sóttkví. Þeir sem greinast með veiruna fara í einangrun. Ef þeir hafa útsett einhvern fyrir veirunni á ferðalaginu þarf sá að fara í sóttkví. Þetta á til dæmis við um sessunauta úr flugvélinni. 

„Við erum með ákveðnar reglur þar; tvær sætaraðir fyrir framan og aftan, og við förum í ákveðna smitrakningu þar og sóttkví,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. „Þannig að allir sem eru útsettir fyrir smituðum einstaklingum þurfa að fara í sóttkví, hvort sem það er í flugi eða einhvers staðar annars staðar.“

Ekki liggur fyrir hvar ferðafólk kemur til með að fara í sóttkví eða einangrun hér á landi. „Fólk og ferðamenn hafa verið að koma hér og hafa verið í sóttkví, það hefur verið á ákveðnum stöðum og hótelum í sóttkví, þannig að ég held að það verði ekki vandamál,“ segir Þórólfur.

Þórólfur segir að það sé forsenda þess að fara þessa leið að hún sé örugglega framkvæmanleg. „Meðal annars með sýnatökuna, hvernig þetta verður gert, að það sé nægjanlegt til, mannafli til staðar, sýnatökupinnar og allt það, þetta er forsendan fyrir því að þetta gangi allt upp.“

Lítið samráð um ferðatakmarkanir

Óformlegar þreifingar hafa verið á milli ráðamanna Norðurlandanna um opnun landamæranna þeirra á milli. Þórólfur segir annars lítið samráð milli landa um hvernig staðið verði að afléttingu ferðatakmarkana. „Það væri nauðsynlegt að hafa samræmdar ákvarðanir, bæði að setja á svona takmarkanir eins og hefur verið gert á undanförnum vikum og eins að aflétta þeim. En þegar að til kastanna kemur þá er það bara ekki þannig. Þá gera menn hlutina mismunandi, það er mismunandi þrýstingur í mismunandi löndum þannig að samræmingin í því er ekki mikil,“ segir Þórólfur. 

 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi