Icelandair og flugmenn gera samning til fimm ára

15.05.2020 - 09:43
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Icelandair og Félag íslenskra atvinnuflugmanna hafa gert nýjan kjarasamning sem gildir til 30. september 2025. „Samningurinn er í samræmi við þau markmið sem lagt var upp með um að auka vinnuframlag og sveigjanleika verulega, segir í tilkynningu frá félaginu. Jón Þór Þorvaldsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna, segir þetta tímamótasamning.

„Flugmenn eru stoltir af því að hafa náð markmiðunum sem lagt var upp með sem eykur enn á samkeppnishæfni Icelandair. Samningurinn tryggir að félagið er vel í stakk búið að til að sækja fram á hvaða markaði sem er til langrar framtíðar og nýta þau tækifæri sem sannarlega munu skapast,“ er haft eftir Jóni Þór í tilkynningu Icelandair.

„Við erum mjög ánægð með að langtímasamningur við flugmenn sé í höfn. Þetta er stórt skref til að tryggja samkeppnishæfni félagsins og veigamikill þáttur í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins. Gerðar voru verulegar breytingar á samningnum sem tryggja aukið vinnuframlag flugmanna og gefa félaginu aukinn sveigjanleika til þróunar á leiðakerfi Icelandair. Með þessu eru flugmenn að leggjast á árarnar með félaginu til framtíðar,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í tilkynningu frá félaginu.

Flugfélagið á enn eftir að semja við Flugfreyjufélag Íslands og í þeirri deilu virðist lítið þokast í samkomulagsátt. Samningafundur var á miðvikudag, hann stóð í klukkutíma og hefur nýr fundur ekki verið boðaður. Flugfreyjur hafa sagt að tilboð Icelandair feli í sér 40 prósenta kjaraskerðingu en því hefur forstjóri félagsins hafnað.

Bæði VR og ASÍ hafa gagnrýnt framgöngu forstjóra félagsins í kjaradeilunni við flugfreyjur. Bogi Nils vísar þeirri gagnrýni á bug en hefur sagt að til að félagið komist út úr þeim hremmingum sem það er í vegna kórónuveirufaraldursins þurfi að nást fram ýmsar breytingar. „Launakostnaðurinn er það sem við verðum að geta haft stjórn á og hann má ekki vera hærri hjá okkur heldur en hjá samkeppnisfélögunum.“ Icelandair sé með gamla samninga á meðan önnur félög hafi gert veigamiklar breytingar.

Stefnt er að því að halda hluthafafund 22. maí þar sem til stendur að ræða hlutafjáraukningu sem er sögð nauðsynleg vegna lausafjárstöðu félagsins. Ríkisstjórnin hefur sagt að hún muni ábyrgjast lán til Icelandair gegn því skilyrði að félagið auki hlutafé sitt. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi