Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hlutabótaleið: Laun stjórnenda ekki hærri en 3.000.000

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ríkisstjórnin samþykkti í morgun frumvörp um hertar reglur um stuðning ríkisins við greiðslu launa á fólks uppsagnarfresti og þeirra sem nýta hlutabótaleiðina. Mánaðarlaun æðstu stjórnenda fyrirtækja sem nýta úrræðið mega ekki vera hærri en 3 milljónir og gildir sú regla til ársins 2023.

Samkvæmt frumvarpi Ásmundar Einars Daðasonar, félagsmálaráðherra, verður hlutastarfaleiðin framlengd til 31. ágúst. Sett verða skilyrði um að samdráttur fyrirtækja sem úrræðið nýta hafi verið í það minnsta 25 prósent frá 1. mars og til þess dags er starfsmaður sækir um atvinnuleysisbætur, eða sækir um að vera áfram á hlutabótaleið. Gagnrýnt hefur verið að fyrirtæki sem standi vel hafi nýtt sér úrræðið. Nokkur þeirra hafa tilkynnt að þau ætli að greiða Vinnumálastofnun til baka, þar á meðal eru Össur, Iceland Seafood, Skeljungur, Hagar og kjötvinnslan Esja gæðafæði, dótturfélag Kaupfélags Skagfirðinga. 

Mega ekki greiða arð

Þess verður krafist að vinnuveitendur sem nýta hlutabótaleiðina staðfesti að þeir hyggist ekki greiða út arð til hluthafa, né lækka hlutafé með greiðslu til hluthafa, greiða óumsamda kaupauka, kaupa eigin hlutabréf eða greiða eigendum sínum eða æðstu stjórnendum mánaðarlaun hærri en 3.000.000 króna til 31. maí 2023.

Vinnumálastofnun getur krafist endurgreiðslu

Vinnumálastofnun fær auknar heimildir til að afla gagna, samkvæmt frumvarpinu. Stofnuninni verður þá heimilt að krefja vinnuveitendur um endurgreiðslu atvinnuleysisbóta, auk 15 prósenta álags ef í ljós kemur að þau hafi ekki uppfyllt skilyrði fyrir greiðslu bótanna. 

Í frumvarpinu er einnig kveðið á um að Vinnumálastofnun verði heimilt að birta lista yfir þá vinnuveitendur sem hafa minnkað starfshlutfall starfsmanna og nýtt hlutabótaleiðina.  

Hámarksfjárhæð launa 633.000 krónur

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, ætlar að leggja fram frumvarp um fjárstuðning ríkisins til að greiða hluta launakostnaðar atvinnurekenda á uppsagnarfresti starfsmanna. Skilyrði fyrir stuðningnum eru að veruleg  fjárhagsleg röskun hafi orðið á atvinnurekstri vegna ráðstafana sem gripið hefur verið til eða aðstæðna sem að öðru leyti hafa skapast vegna kórónuveirufaraldursins. 

Samkvæmt frumvarpinu nær úrræðið til þeirra sem fyrirtækja sem hófu starfsemi fyrir 1. desember 2019 og hafa ótakmarkaða skattskyldu hér á landi. Stuðningur ríkisins getur að hámarki orðið 85 prósent af launakostnaði starfsmanns á uppsagnarfresti, og að hámarki 633.000 krónur á mánuði vegna launa. Frumvarpið kveður á um að uppsagnarfresturinn sé ekki lengri en þrír mánuðir. Þá er lagt til að Skatturinn sjái um framkvæmd úrræðisins og að hægt verði að sækja um það rafrænt.