Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Heildaraflinn dregst saman vegna áhrifa kórónuveiru

15.05.2020 - 15:00
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Heildarafli íslenskra fiskiskipa í apríl var ríflega tuttugu prósentum minni en á sama tíma í fyrra. Helst skýringin er hrun í sölu á fiski til veitingahúsa og hótela í Evrópu.

Tæp 89.000 tonn af fiski komu á land í síðasta mánuði miðað við 113.000 tonn í apríl 2019. Þorskafli var álíka mikill og í fyrra, en verulegur samdráttur varð í veiðum á ýsu, ufsa og karfa.

Ástæðan er fyrst og fremst mun minni eftirspurn eftir fiski í Evrópu vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Þetta eru helstu tegundir sem seldar eru til veitingahúsa og hótela, en sá markaður hefur algerlega hrunið. Sem dæmi má nefna að um 12.000 fish and chips stöðum var lokað í Bretlandi. Þorskurinn er söluvænni og fer meira til verslunarkeðja en sá markaður hefur haldist betur. Stór þáttur í minni heildarafla er einnig samdráttur í veiðum á kolmunna sem var um þriðjungi minni en í apríl 2019.

Í samtölum við framleiðendur kom fram að óvissan er enn mikli. Menn eru þó nokkuð bjartsýnir á að markaðir fari smám saman að opna, en það veltur mest á því hvenær tekst að opna veitingastaði og hótel á ný í Evrópu.