Framlengja samning um lágmarks flugsamgöngur

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Íslensk stjórnvöld hafa hafa framlengt samningi við Icelandair um lágmarks flugsamgöngur til Evrópu og Bandaríkjanna til 27. júní. Samningurinn var gerður vegna ástandsins sem hefur skapast vegna kórónuveirufaraldursins. Samkvæmt honum verða 36 flugferðir á vegum Icelandair á tímabilinu; til Boston, Lundúna og Stokkhólms.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, og Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, undirrituðu samninginn á rafrænan hátt í dag, að því er fram kemur í tilkynningu frá samgönguráðuneytinu. Samningurinn er framhald á fyrri samningum ríkisins við Icelandair sem giltu frá 27. mars til 16. maí. Hægt verður að framlengja samningnum tvisvar sinnum, fyrst til 8. ágúst og svo aftur til 19. september.

Samkvæmt samningnum greiðir ríkið að hámarki 300 milljónir króna fyrir tímabilið 17. maí til 27. júní. Greiðslur fyrir flug á öllu tímabilinu geta að hámarki orðið 500 milljónir króna. Í tilkynningunni segir að tekjur Icelandair af flugferðunum lækki þessar greiðslur frá ríkinu. 

Áður en fyrsti samningurinn var gerður við Icelandair auglýstu Ríkiskaup eftir tilboðum á evrópska útboðsvefnum TED (Tenders Electronic Daily) og var Icelandair var eina flugfélagið sem gerði tilboð.

Samkvæmt samningnum verða flugferðirnar næstu tvær vikur eftirfarandi, með þeim fyrirvara að dagsetningum gæti verið breytt eða flugferðir felldar niður:

  • Boston (Logan International – BOS) 21., 23., 28. og 30. maí
  • London (Heathrow – LHR) 17., 20., 24. og 27. maí
  • Stokkhólmur (Arlanda – ARN) 20., 23., 27. og 30. maí

Verði hægt að fljúga til New York eða Kaupmannahafnar á samningstímanum getur ríkið ákveðið, í samráði við Icelandair, að flogið verði til New York í stað Boston og til Kaupmannahafnar í stað Stokkhólms.

Fréttin hefur verið uppfærð.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi