Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Eystrasaltsríkin opna landamærin sín á milli

15.05.2020 - 10:00
epa08423465 Lithuanian state border guards check vehicles at the Salociai-Grenctale border checkpoint, Lithuania, 15 May 2020. Lithuania has maintained some restrictions for the citizens of the Baltic states  that wish to cross the border. Lithuania, Estonia and Latvia opened their borders for citizens on 15 May, so that they may travel between the three nations.  EPA-EFE/TOMS KALNINS
Talsverð umferð var við landamæri Lettlands og Litáens í morgun. Mynd: EPA-EFE - EPA
Á miðnætti í nótt opnuðu Eystrasaltsríkin, - Eistland, Lettland og Litáen, landamærin sín á milli. Ríkisborgarar og aðrir sem þar búa geta nú ferðast milli landanna að uppfylltum vissum skilyrðum.

Fólk getur nú óheft farið milli landanna þriggja hafi það ekki verið utan þeirra undanfarinn hálfan mánuð, ekki greinst smitað eða verið í návígi við einhvern smitaðan. Utanaðkomandi verða að fara í hálfs mánaðar sóttkví.

Samkvæmt Johns Hopkins-hálskólanum sem safnað hefur upplýsingum um kórónuveirufaraldurinn hafa tiltölulega fáir smitast í löndunum þremur miðað við víða annars staðar á meginlandi Evrópu, en samanlögð dauðsföll af völdum COVID-19 eru innan við 150.

Þetta er fyrsta samstarf um opnun landamæra í Evrópu síðan ríki lokuðu landamærum sínum vegna kórónuveirufaraldursins og rætt hefur verið um að fleiri bætist í hópinn, hugsanlega Finnland og Pólland.

Faraldurinn og aðgerðir vegna hans hafa bitnað á efnahag ríkja og gera Eystrasaltsríkin ráð fyrir allt að átta prósenta samdrætti á þessu ári. Saulius Skvernelis, forsætisráðherra Litáens, segir að með opnun landamæra milli ríkjanna felist ný tækifæri fyrir fyrirtæki sem hafi orðið að loka vegna faraldursins, auk þess muni það vekja vonir í brjóstum fólks um að líf sé að færast í eðlilegt horf á ný.

Sum Evrópuríki eru farin að slaka á takmörkum við landamæri sín, Þjóðverjar þar á meðal, en þeir áforma að opna landamærin 15. júní ef ástandið versnar ekki.

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV