„Efnahagsáfall aldarinnar“

15.05.2020 - 12:45
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Efnahagssamdráttur í ár verður sá mesti frá lýðveldisstofnun, segir forstöðmaður hagfræðideildar Landsbankans. Spá bankans gerir ráð fyrir að hagkerfið byrji að taka við sér um mitt árið en að samdrátturinn verði þó um níu prósent.

„Hérna á Íslandi er þetta mesti samdráttur sem við höfum séð frá lýðveldisstofnun á einu ári. Efnahagssamdrátturinn eftir bankahrunið hann varði í tvö ár. Hann var kannski meiri í heildina en þetta er mesta áfall sem við höfum séð á einu ári,“ segir Daníel Svavarsson, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans um spá bankans sem kynnt var undir yfirskriftinni „efnhagsáfall aldarinnar.“

Rífleg vaxtalækkun í næstu viku

Þessi sögulegi samdráttur hljóðar upp á tæplega níu prósent. Spáin gerir jafnframt ráð fyrir að atvinnuleysi á árinu verði að meðaltali um níu prósent og að verðbólga fari upp í 3,5 prósent í lok árs vegna veikingar krónunnar. Þá haldi Seðlabankinn áfram að lækka vexti út árið. Strax í næstu viku lækki vextir um eitt prósentustig og í árslok verði stýrivextir komnir niður í 0,5 prósent.

Batinn hefst strax í ár

Góðu tíðindin í annars svartri spá bankans er sú að batinn hefst strax á þessu ári, nánar tiltekið um mitt ár þegar stjórnvöld hér á landi og í helstu viðskiptalöndum okkar byrja að draga úr varúðaraðgerðum. Neysla tekur við sér, fyrirtæki munu smám saman ráða fólk aftur til starfa og örvunaraðgerðir stjórnvalda byrja að hafa áhrif.

Gert er ráð fyrir fimm prósenta hagvexti á næsta ári og að atvinnuleysi fari niður í sex prósent. „Þetta verður nátengt þróuninni í ferðaþjónustunni. Við gerum ráð fyrir að við gætum séð um 650 þúsund ferðamenn á þessu ári. Það hafa nú þegar 330 þúsund ferðamenn heimsótt okkur,“ segir Daníel.

Meiri líkur á verri þróun

Sérfræðingar bankans slá þann eðlilega fyrirvara við spána að hún sé háð töluverðri óvissu og í raun séu 40 prósenta líkur á að þróunin verði verri en spáin segir til um, en einungis 10 prósenta líkur á að hún verði betri.  „Ef það verður ekki komið böndum á útbreiðslu veirunnar þegar það fer að líða á þetta ár, tala nú ekki um ef hún myndi blossa aftur upp að nýju á næsta ári, þá mun hún hægja verulega á efnahagsbatanum bæði hér og alls staðar í heiminum.“