Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Barist fyrir tilverurétti villtra borgarblóma

Mynd: hallaharðar / hallaharðar

Barist fyrir tilverurétti villtra borgarblóma

15.05.2020 - 14:32

Höfundar

Nöfn villtra borgarblóma eru nú merkt með nafni sínu á stéttir evrópskra borga. Markmið þeirra sem kríta nöfnin er að fagna fjölbreytileika náttúrunnar. Þórólfur Jónsson, deildarstjóri náttúru og garða hjá Reykjavíkurborg, vill minni slátt og meiri náttúru í borginni en segir arfa vera ranga plöntu á röngum stað.

Ef vel er að gáð má sjá nýja vini spretta upp um borgarlandslagið. Þetta eru reyndar gamlir vinir, því þeir eru hluti af vorinu og þrátt fyrir að veðrið geti verið allskonar mæta þessir gulu vinir alltaf, sama hvað. Þetta eru auðvitað fíflarnir. Fíflar vaxa ekki bara í grasbölum og á umferðareyjum, heldur brjóta þeir sér leið upp á móti sólu milli steinhellna og skreyta þannig gangstéttar borgarinnar. Sumum til mikillar ánægju en öðrum til meiri ama. Það eru nefnilega ekki allir sem gleðjast yfir þessum gulu vinum.

„Illgresi er kannski röng planta á röngum stað,“ segir Þórólfur Jónsson, deildarstjóri náttúru og garða hjá Reykjavíkurborg, en hann sér um skipulag og stefnumörkun grænna svæða og ber auk þess ábyrgð á náttúruvernd innan borgarmarkanna. Sjálfur segist Þórólfur vera mjög hrifinn af fíflum en það fari allt eftir samhenginu hvort þeir séu illgresi eða ekki. „Það er skilgreining okkar mannanna sem ákveður þetta. Plantan veit ekkert að hún er illgresi,“ segir Þórólfur en rætt var við hann um nýja hreyfingu fólks sem berst fyrir tilverurétti villtra borgarblóma í Samfélaginu á Rás1. 

Undanfarin ár hefur meðvitund um mikilvægi líffræðilegs fjölbreytileika farið vaxandi og stjórnvöld víða um heim í sífellt meira mæli hætt að nota eiturefni á náttúruna. Evrópusambandið hefur gefið út þá tilskipum að innan tíu ára skuli 20% alls ræktunarlands verða lífrænt. Og borgaryfirvöld víða hafa lagt bann við skordýraeitri. Frakkland bannaði til að mynda notkun eiturefna í öllum almenningsrýmum borga sinna árið 2017 og síðan þá hefur spretta villtra blóma innan borgarmarka aukist, með tilheyrandi býflugnasuði, og sömuleiðis meðvitund íbúanna um líffræðilega fjölbreytni.

Önnur afleiðing þessa er hreyfing fólks sem vopnað krítum merkir blómin sem vaxa upp úr gangstéttum borganna með nafni sínu. Markmið þeirra sem kríta nöfnin er að fagna, og minna á, fjölbreytileika náttúrunnar. Þetta er einskonar andspyrnuhreyfing náttúruunnenda því margar borgir hafa það á stefnuskrá sinni að útrýma blómum sem vaxa á óæskilegum stöðum. Það er jú hluti af hreinsun á borgarlandslagi að útrýma arfa en svo er aftur á móti skilgreiningaratriði hvað sé arfi og hvað ekki. Arfi er, samkvæmt skilgreiningunni, jurt sem vex á óæskilegum stað. Það er svo verk embættismanna að ákveða hvað sé óæskilegur staður og hvað ekki. Borgarblómahreyfingin vill meina að enginn staður sé neinu blómi óæskilegur. 

Hreyfingin á upptök sín að rekja til Frakklands, og reyndar líka til COVID-19, því  minni umhirða almenningsrýma á tímum farsóttarinnar varð til þess að grasafræðingurinn Boris Presseq, starfsmaður á náttúrufræðisafni Toulouse, byrjaði að kríta nöfn villtra jurta á stéttar og veggi borgarinnar. Á nokkrum vikum varð smá krot í Toulouse að hreyfingu í frönskum borgum en ferðaðist svo hratt yfir til Bretlands. Hún hefur síðan farið eins og eldur í sinu um netheima en tugir þúsunda hafa líkað við myndir af merktum trjám og blómum á bæði Instagram og Twitter og myndband af franska grasafræðingnum að kríta nöfn jurta á franskar stéttir hefur fengið yfir 7 milljón áhorf í dag.

Í myndbandinu segist grasafræðingurinn vilja gera borgarbúa meðvitaða um ríkidæmi náttúrunnar sem sprettur upp á óvæntustu stöðum í borgarlandslaginu. Hann krítar nöfn plantnanna á stéttina þar sem þær vaxa, segir frá uppruna þeirra og jafnvel lækningamætti.  Það virðist reyndar vera nokkur þörf á þessari fræðslu því samkvæmt nýlegri evrópskri könnun, sem The Guardian vísar í í grein um sama efni, gátu aðeins 6% af 16-24 ára horft á mynd af villtri fjólu og sagt nafn hennar. Í sömu könnun sögðust 70% vilja geta þekkt fleiri villtar jurtir. 

Þórólfur tekur undir það að stundum sé erfitt að eyða fallegum blómum sem hafi verið skilgreind sem arfi og að það sé skemmtileg pæling að leyfa svo harðgerri plöntu að dafna. Eins segist Þórólfur vilja sjá meira af óslegnum túnum í borgarlandslaginu þó mörgum finnist það vera sóðaskapur. Það sé hreinlega ómögulegt að gera öllum til geðs. „Ég held að við getum alltaf verið með þann skala að við skilgreinum þau svæði sem við viljum hafa fín. Við ætlum áfram að hafa sumarblómabeð án arfa og svæði sem er vel við haldið og eru mikið slegin. Og svo breytum við öðrum svæðum í náttúrleg svæði sem eru bara slegin af og til. Enginn er ánægður með hvernig er slegið hvort eð er. Við látum ekki arfann taka yfir skrúðgarðana, heldur höfum þetta beggja blands.“

Hægt er að hlusta á umfjöllunina í heild sinni hér.

Tengdar fréttir

Náttúra

Hjólandi vísindamaður fann gullsnotru í Vaðlaskógi