Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Baráttan fram undan kannski erfiðari en til þessa

Mynd: Lögreglan á höfuðborgarsvæ� / Aðsend mynd
Ný vegferð í baráttunni við kórónuveiruna, sem veldur COVID-19, er að hefjast og nú skiptir meira máli en nokkru sinni áður að fólk standi saman um þær aðgerðir sem fram undan eru. Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis á upplýsingafundi Almannavarna í dag. Þar átti hann við þær afléttingar sem fyrirhugaðar eru á næstunni.

Ekkert tilfelli COVID-19 var greint hér á landi síðasta sólarhring og eru virk smit, sem vitað er um, tíu talsins. Enginn liggur inni á Landspítala eða á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Einungis fjögur smit hafa verið greind í maí. 

Þórólfur sagði á fundinum að þakka megi þennan árangur samstöðu landsmanna í baráttunni við veiruna og hve viljugt fólk var að fara eftir leiðbeiningum.

Segir ljóst að mismunandi skoðanir verði um opnun

„En ég held að það sé nokkuð augljóst að við erum að hefja nýja vegferð í baráttunni við veiruna, sem að annars vegar felst í því að standa vörð um þann góða árangur sem að náðst hefur og svo hins vegar að koma samfélaginu í ásættanlegt horf og koma hjólum atvinnulífsins í gang til hagsbóta fyrir alla landsmenn,“ sagði sóttvarnalæknir. „Þetta er og verður áskorun og ég held að megi segja að þessi barátta, sem við erum að leggja upp í núna, verður að mörgu leyti annars eðlis og kannski erfiðari og snúnari en sú sem við höfum staðið frammi fyrir til þessa. Það er ljóst að mismunandi skoðanir verða uppi um það hvernig eigi að opna samfélagið aftur og hvernig eigi að koma atvinnulífinu aftur í gang.“

Áframhaldandi samstaða mikilvæg, að mati sóttvarnalæknis

Því ríði meira á nú, en kannski nokkru sinni fyrr, að fólk standi áfram saman um þær aðgerðir sem fram undan eru, að mati Þórólfs. „Af því að áframhaldandi samstaða, að mínu mati, mun skipta mestu máli hvað varðar endanlegan sigur á veirunni og að það verði gert með sem minnstum tilkostnaði.“