Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Atvinnuleysi í apríl var 18%

Mynd með færslu
 Mynd:
Heildaratvinnuleysi í apríl fór í nærri 18 prósent samanlagt, það er 7,5 prósent í almenna bótakerfinu og 10,3 prósent vegna minnkaðs starfshlutfalls. Þetta kemur fram í skýrslu Vinnumálastofnunar um vinnumarkaðinn í apríl.

Rúmlega 16.400 voru atvinnulausir í almenna bótakerfinu og 32.800 á hlutabótaleiðinni. Meðal bótahlutfall þeirra sem voru þar var um 60 prósent. Atvinnuleysi þeirra sem voru á hlutabótaleiðinni var mjög bundið við ferðaþjónustu.

5.800 var sagt upp í hópuppsögnum í mars og apríl hjá 85 fyrirtækjum. Stór hluti þeirra var áður með skert starfshlutfall, meðal annars 2.000 starfsmenn Icelandair. Þeir starfsmenn vinna uppsagnarfrest næstu mánuði en segir að hluti þeirra komi að öllum líkindum inn á atvinnuleysisskrá í ágúst. 95 prósent þeirra sem sagt var upp búa á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum.

Vinnumálastofnun býst við því að nokkuð dragi úr atvinnuleysi í maí því allmargir séu að fara úr hlutabótaleiðinni. 7.500 þeirra 35.000 sem voru samþykktir í hlutabótaleiðina voru farnir af henni 15. maí. Um helmingur þeirra í sitt fyrra starf og um helmingi hefur verið sagt upp. Staðan er verst á Suðurnesjum þar sem atvinnuleysi fór í rúmlega 25 prósent í apríl úr 14 prósentum í mars. Á höfuðborgarsvæðinu er atvinnuleysi um 19 prósent sem er nokkru yfir landsmeðaltali.