Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

180 flóttamenn hafa farist á Miðjarðarhafi á þessu ári

15.05.2020 - 07:07
Erlent · Flóttamenn · Ítalía · Malta · Evrópa
In this photo released Friday, Aug. 9, 2019, the SOS Mediterranee rescue team distributes life-jackets to men, women and children on a rubber boat in distress off Libya, before taking them onboard the Ocean Viking rescue ship. Italian Interior Minister Matteo Salvini, who has triggered a government crisis in Italy, said he is preparing to sign a ban on the ship's entry into Italian waters. (Photo SOS Mediterranee/MSF via AP)
Mynd úr safni.  Mynd: AP
Straumur flóttamanna yfir Miðjarðarhafið heldur áfram þrátt fyrir að Evrópulönd hafi lokað höfnum sínum í kórónuveirufaraldrinum. Hlé var gert á öllu björgunarstarfi á Miðjarðarhafi í síðustu viku.

Örfáir flóttamenn hafa náð ströndum Evrópu síðustu vikur, þar á meðal 79 manna hópur sem kom til Ítalíu um síðustu helgi. Vincent Cochetel, sendimaður flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna við Miðjarðarhafið, segir að það stefni í alvarlegt ástand á Miðjarðarhafi ef lönd draga lappirnar við björgunarstarf og fara ekki að leyfa fólki að ná landi. Hann segir að tæplega 180 manns hafi farist á Miðjarðarhafi síðan í janúar. 

Forsætisráðherra Möltu sætir rannsókn

Ítalía og Malta lokuðu höfnum sínum í byrjun apríl þegar faraldurinn fór að breiðast út í Evrópu. Á þeim tíma voru þar tveir björgunarbátar að störfum, en þeir hafa báðir verið gerðir kyrrsetnir af ítölsku landhelgisgæslunni. 

Þá tilkynnti Robert Abela, forsætisráðherra Möltu, í síðasta mánuði að hann sætir rannsókn fyrir hlut sinn í andláti minnst þriggja flóttamanna sem höfðu freistað þess að sigla frá Líbíu til Ítalíu. Talið er að maltneskur gæslubátur hafi klippt á víra í mótor björgunarbátsins sem flóttamennirnir sigldu.

Cochetel segir að það bæti í alvarleika málsins að fjöldi flóttamanna sem kemur frá Líbýu sé fjórfaldur á við það sem var á sama tíma fyrir ári. Yfir 6.600 reyndu að ná þaðan til Evrópu á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs. Einnig hefur streymi flóttamanna frá Túnis tvöfaldast. Cochetel leggur áherslu á það að þótt engir björgunarbátar séu á Miðjarðarhafinu, þá dragi það ekki úr fjölda flóttamanna sem reyna að komast þar yfir.