Vísbendingar um að húsnæðisöryggi leigjenda aukist

14.05.2020 - 09:19
Drónamyndir.
 Mynd: RÚV
Fólk sem býr í leiguhúsnæði eða í foreldrahúsum telur líklegra nú að þeir kaupi sér fasteign á næstu 6 mánuðum heldur en síðastliðin þrjú ár. Færri leigjendur telja líklegt að þeir verði áfram á leigumarkaði eftir 6 mánuði í apríl, samkvæmt mælingu sem gerð var i janúar. Þetta kemur fram í mánaðaskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem birt var í morgun. Töluverð aukning mælist á milli ára meðal leigjenda sem telja sig búa við húsnæðisöryggi.

Í skýrslunni kemur fram að það mun taka einhvern tíma að greina bein áhrif af COVID-19 faraldrinum á húsnæðismarkað vegna tafar í hagtölum. Gangi forsendur opinberra þjóðhagsspáa eftir séu líkur á því að áhrifin verði talsverð til skamms tíma en ekki megi vænta þess að miklar sviptingar verði á húsnæðismarkaðnum til lengri tíma litið. Haldi byggingarframkvæmdir íbúðarhúsnæðis áfram að dragast saman sé hætta á að íbúðaskortur myndist innan fárra ára þegar hagkerfið tekur við sér á ný.

 

Könnun Zenter rannsókna og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sýnir að mun fleiri töldu hagkvæmt að kaupa sér íbúðarhúsnæði í apríl en á sama tíma í fyrra.

Þá segir í skýrslunni að samanburður á söluverði og ásettu verði íbúða gefur til kynna að eftirspurn eftir húsnæði hafi verið þó nokkur að undanförnu. Um 38% af nýbyggingum seldustu undir söluverði miðað við tölur í mars síðastliðnum, en 44% í febrúar og um 48% í janúar. Hlutfallið hefur ekki verið lægra síðan í ágúst 2018.

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV