Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Vilja að fríverslunarsamningur taki gildi í ár

14.05.2020 - 17:44
Mynd með færslu
 Mynd: Stjórnarráðið
Samningaviðræður um fríverslunarsamning milli Íslands og Bretlands ættu að hefjast sem fyrst og hann ætti að taka gildi strax á þessu ári. Þetta urðu þau Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Wendy Morton, ráðherra Bretlands fyrir málefni Evrópu- og Ameríku, um á fjarfundi í dag.

Ráðherrarnir áttu fjarfund í dag þar sem þau undirrituðu samstarfsyfirlýsingu milli Íslands og Bretlands. Yfirlýsingunni er ætlað að efla samskipti ríkjanna með sameiginlegum framtaksverkefnum.

Mynd með færslu
Wendy Morton við undirskrift samningsins.

Á fundinum fögnuðu þau Guðlaugur Þór og Morton því að fyrsti fundur aðalsamningamanna um framtíðarsamband ríkjanna fór fram í síðustu viku. Vinna við að treysta tvíhliða samskipti Íslands og Bretlands hefur staðið frá því að Bretar ákváðu að segja skilið við Evrópusambandið og óska eftir útgöngu úr því í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2016.

Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins er sagt frá því að um þessar mundir eru 80 ár séu liðin frá því að Ísland og Bretland tóku upp stjórnmálasamband. Samstarfsyfirlýsingin sem undirrituð var í dag ber heitið Sameiginleg sýn fyrir 2030. Markmið hennar er að auka hagsæld, sjálfbærni og öryggi, innan ríkjanna og utan.

Hægt er að skipta megináherslusviðum yfirlýsingarinnar í sjö svið:

  • Viðskipti og fjárfestingar
  • Sjávarútveg
  • Rannsóknir og nýsköpun
  • Svæðisbundna og alþjóðlega samvinnu
  • Varnar- og öryggismál
  • Loftslagsbreytingar og norðurslóðir
  • Tengsl þjóðanna