„Verst að vera svikinn heima, af foreldrum sínum“

Mynd: Einkasafn / Aðsend

„Verst að vera svikinn heima, af foreldrum sínum“

14.05.2020 - 09:11

Höfundar

Þegar Guðmundur R. Einarsson tók öndunarvél föður síns úr sambandi fyrirgaf hann honum. Hann opnar sig um áralangt heimilisofbeldi sem hann kveðst hafa búið við af hálfu foreldra sinna og segir að samfélagið og yfirvöld hafi brugðist. Hann skrifar nú pistla um heimilisofbeldi og alkóhólisma og langar að setja saman bók um málefnið.

Guðmundur R. Einarsson, fyrrverandi markaðs- og þróunarstjóri DV, hefur tekið við rekstri Fréttanetsins. Hann ritaði grein á vefinn sem vakti mikla athygli. Þar opnar hann sig um síendurtekið ofbeldi sem hann mátti þola í æsku og alkóhólisma sem dró báða foreldra hans og bróður til dauða. Hann fagnar aukinni umræðu um heimilisofbeldi en segir að börnin gleymist gjarnan í henni. „Ofbeldið er ekki það versta sem maður lendir í. Það er verst að vera svikinn heima hjá sér, af foreldrum sínum,“ segir Guðmundur í Mannlega þættinum á Rás 1. Hann segir afar sárt að stórfjölskyldan hafi, eftir fráfall foreldra hans, slitið samskiptum við hann að mestu. „Ég á bara eina frænku í dag sem ég tala við. Ég tala ekki við hitt frændfólk mitt, það er bara allt of erfitt, allt skemmt þar. Og eftir að dauðsföllin byrja verður það meira og meira erfitt.“

Guðmundur segist þó ekki beint reiður við fjölskylduna en honum sárnar áralöng þögnin. Hann grunar að viðbrögð þeirra skýrist af samviskubiti yfir að hafa aldrei gert neitt. „Þegar pabbi deyr þá tók ég eftir að fólk kemur en horfir ekki í augun á mér. Ég upplifði það þannig, og fólk í kringum mig, að skömmin sé þarna. Og maður skilur það alveg.“

Báðir bræður hans fóru í mikla neyslu líkt og foreldrar þeirra en það gerði Guðmundur ekki. Hann sannfærður um að kærleikurinn sem hann var umvafinn á heimili ömmu sinnar og afa hafi haft mikið að segja. Bræður hans dvöldu hins vegar ekki hjá þeim. Annar bróðir hans lést aðeins 29 ára að aldri. Hinum bróður hans tókst að hætta í neyslu og hefur verið edrú í 25 ár. 

„Maður hefur heyrt að hún hafi farið í fóstureyðingu“

Guðmundur fæddist á Akranesi en fluttist sem barn til Ólafsvíkur. Þaðan á hann ágætar minningar. Um tíu ára aldur kom hann aftur á Akranes. Þá fer að halla verulega undan fæti og ofbeldið verður stöðugt. „Þá fer allt til fjandans.“

Hann minnist þess að ofbeldið hafi hafist fyrir alvöru eftir að móðir hans fór á spítala og kom heim gjörbreytt og harmi slegin eftir einhverja erfiða reynslu sem Guðmundur veit ekki hver var. „Þetta er ekki móðir mín sem kemur aftur. Þá er farið að drekka og drekka,“ segir hann. Hann ræddi síðar við bræður sína um hvað hefði komið þarna fyrir og þeir minnast þess að hún hafi talað um að vera að syrgja systur þeirra. En bræðurnir áttu aldrei neina systur. „Þetta er svo mikil eymd. Hún nær ekki að segja okkur frá þessu en maður hafði heyrt að hún hefði farið í fóstureyðingu. Ég veit það ekki.“

Barna-ekki-vernd

Barnaverndanefnd kom bræðrunum aldrei til bjargar og segist Guðmundur kalla hana „barna-ekki-vernd“ í ljósi reynslunnar. „Þar eru haldnir vínarbrauðsfundir þar sem borðað er vínarbrauð og talað en svo gerist ekkert,“ segir hann. 

Líkamlegt ofbeldi var ekki daglegt á heimilinu en andlega ofbeldið var það. Hann segir að það hafi haft mikil áhrif á hann sem barn og að hann hafi verið týndur. „Maður var fljótur að missa áhugann á skólanum og manni var alveg sama,“ segir hann. 

Leið eins og allir vissu

Það særði hann einnig að gruna að margir vissu af því sem gekk á innan veggja heimilisins án þess að koma til hjálpar. Faðir hans var kennari og áberandi í samfélaginu og Guðmundi leið eins og allir vissu. „En svo var það svona. Maður vill ekki segja of mikið og draga fólk inn í þetta en það vissu margir,“ segir hann. „Það voru margir þarna heima hjá foreldrum mínum að drekka. Svo mætti maður í skólann daginn eftir og var sendur í skammarkrókinn fyrir að vera ekki búinn að læra. Það situr rosalega í mér í dag að samfélagið grípi ekki neins staðar inn í. Það vilja allir gera vel en það kann þetta enginn.“

Tók öndunarvélina úr sambandi og fyrirgaf föður sínum

Faðir Guðmundar var í öndunarvél á spítala þegar hann var úrskurðaður látinn. Það kom í hlut Guðmundar að taka öndunarvélina úr sambandi. Þá tókst honum að fyrirgefa föður sínum. „Þá kyssi ég pabba og segi bara: Ég fyrirgef þér og elska þig,“ rifjar hann upp. „Þá hrundi ég niður." Og það var léttir fyrir hann að sleppa takinu af reiðinni. „Þá gat ég farið að vinna í sjálfum mér og ég hef gert það.“

Guðmundur segir að enn búi börn við skelfilegar aðstæður á heimilum þar sem ekkert sé að gert. „Ég veit um eitt dæmi sem sýnir að þetta er að gerast í dag, þar sem verið er að berjast fyrir barni við svipaðar aðstæður. En maður getur ekki sagt mikið frá því,“ segir hann. 

Draumurinn er að skrifa bók um drengi sem búa við ofbeldi á heimilum sínum og Guðmundur hefur í hyggju að bæta við fleiri pistlum um ofbeldi af þessu tagi. Hann bendir á að lesendur megi gjarnan setja sig í samband við hann ef þeir hafa sögu að segja eða vilja benda honum á einhvern vinkil sem hann er að gleyma í umfjöllun sinni um málefnið.

Rætt var við Guðmund R. Einarsson í Mannlega þættinum á Rás 1.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Ég stend mig enn að því að tala við pabba“

Menningarefni

„Svona sársauki getur tætt mann í sundur og eyðilagt“