Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vefur röggvarfeld fyrir opnum tjöldum

Mynd: RÚV / RÚV

Vefur röggvarfeld fyrir opnum tjöldum

14.05.2020 - 11:25

Höfundar

Ásthildur Magnúsdóttir vefari hefur árum saman reynt að svara því hvernig feldir til forna litu út. Á dögunum flutti hún vefstólinn sinn frá Selfossi í Hönnunarsafn Íslands í Garðabæ þar sem hún sýndi gestum og gangandi hvernig feldur verður til.  

Ásthildi var boðið í þriggja mánaða vinnustofudvöl í Hönnunarsafni Íslands í marsbyrjun en fljótlega þurfti að loka safninu. 

„Þá ákváðum við að setja stólinn hér í anddyrið. Það var skemmtilegur tími því fólk lagðist á gluggann og ég gat talað í gegnum rifur og fékk í rauninni mikla athygli. Svo vorum við með beint streymi.“  

 Ásthildur segist frá blautu barnsbeini hafa haft þörf fyrir að vita hvernig feldurinn sem talað var um í Íslendingasögunum leit út en fékk engin svör fyrr en hún fór til Noregs, þar sem hún bjó í áratug.   

„Norðmenn að þeir eiga þessa þekkingu og þar fékk ég aðgang að útliti skinnfelda til forna.“ Að auki nýtti Ásthildur sér takmarkaðar upplýsingar um útlit feldanna í Íslendingabókunum til að geta í eyðurnar.  

 „Feldurinn er þannig gerður að teknar eru sex til tíu gærur af skepnunni.  Svo eru gerðir ferningar úr hverri einustu gæru og þær saumaðar saman í stóran feld. Þá ertu komin með grip, eitthvað sem mér finnst líklegt að sé feldurinn,“ segir hún og sýnir fyrsta feldinn sem hún útbjó í Noregi.   

Auk skinnfeldanna vefur Ásthildur svokallaðan röggvarfeld.  

„Röggvarfeldurinn er ekki úr skinni heldur ofið vaðmál með röggvum. Rögg er sama og rýja. Allir þekkja rýjamottur. Röggvarfeldur er eiginlega það sama nema þú vefur vaðmál. Erlendis en notað garn en íslenska sauðkindin er svo stórmerkileg að hún er með tvær gerðir af ull á sér: tog og þel. Togið er notað í þessa röggva og þá er ég komin með gervifeld. Þetta er létt og lipurt, eins og hvert annað vaðmálsteppi. Sniðugt hjá þeim að hafa fattað upp á þessu, eins og krakkarnir segja.“  

Ásthildur vefur feldi í Hönnunarsafninu fram á föstudaginn 15. maí en feldirnir hanga til sýnis út mánuðinn. Rætt var við Ásthildi í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan.