Segir framgöngu Boga lítilsvirðingu við samninganefnd

14.05.2020 - 15:48
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Alþýðusambandið kom athugasemdum á framfæri við ríkissáttasemjara og Samtök atvinnulífsins í gær. Forsvarsmenn sambandsins eru ósáttir við að Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, setti sig milliliðalaust í samband við félaga í Flugfreyjufélagi Íslands eftir að samninganefnd hafnaði tilboði Icelandair. Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, segir þetta lítilsvirðingu við samninganefnd, stjórn félagsmenn og félagsmenn.

Bogi sendi félagsmönnum í Flugfreyjufélagi Íslands bréf í gær. Þar lýsti hann áhyggjum af því að ekki yrði lengra komist í viðræðum við Flugfreyjufélag Íslands. Bogi sagði einnig að tillögur samninganefndar Flugfreyjufélagsins væru ekki til þess fallnar að tryggja framtíð Icelandair.

Rosalegt að forstjóri fari framhjá samninganefnd

„Það er auðvitað rosalegt þegar forstjóri Icelandair fer framhjá kjörinni samninganefnd félagsmanna og beinir sér beint að félagsmönnum með áróður, með opinbert tilboð sem búið var að hafna í gegnum félagslegt ferli,“ segir Drífa. „Þetta er í rauninni lítilsvirðing við samninganefnd Flugfreyjufélagsins, félagslega kjörna stjórn og í rauninni félagsmenn Flugfreyjufélagsins alls að ganga svona freklega fram hjá þeim vinnureglum sem gilda í kjarasamningsviðræðum.“

Drífa segir að það sé spurning hvort að Bogi hafi brotið reglur en að hann hafi allavega ekki gengið fram í anda laganna.

„Ég velti því fyrir mér hvort að tilgangurinn hafi verið að splundra samstöðunni. Það sem ég hef heyrt og talað við margar flugfreyjur og félagsmenn þeirra hef ég dáðst að því hvað samstaða þeirra er órofa og hvað það ríkir mikill traust og trúnaður gagnvart kjörinni forystu félagsins og ekki síst samninganefndinni.“

Vilja að fólk virði reglur

ASÍ sendi ríkissáttasemjara og Samtökum atvinnulífsins bréf í gærkvöld þar sem athugasemdir voru gerðar við framgöngu forstjóra Icelandair. „Við treystum því að bæði ríkissáttasemjari og Samtök atvinnulífsins leggi að sínu fólki að virða reglur,“ segir Drífa.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi