Ríkið eignist hlut ef stuðningur fer yfir 100 milljónir

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Nemi opinber stuðningur við fyrirtæki sem lenda í vanda vegna COVID-19 100 milljónum króna eða meira ætti ríkið að eignast hlut í fyrirtækinu. Þetta er meðal þeirra tillagna sem ASÍ kynnti á blaðamannafundi í Gerðasafni eftir hádegi í dag undir yfirskriftinni Rétta leiðin.  

Drífa Snædal, forseti ASÍ, sagði að grípa þyrfti til þrennskonar aðgerða vegna COVID-19. Það eru bráðaaðgerðir til að bjarga lífum, uppbygging og eftirlit. Drífa sagði að bráðaaðgeðrir hefðu gengið vel. „Næst á eftir því að bjarga lífum er afkomuöryggi og varðstaða um heimilin. Það hefur verið gripið til hlutabótaleiðarinnar, launa í sóttkví og fleira en það þarf að gera það til lengri tíma,“ sagði Drífa og lagði áherslu á að hlutabótaleiðin myndi vara þangað til hennar væri ekki lengur þörf. Þá þyrfti að hækka atvinnuleysisbætur. 

Þá vill ASÍ að það liggi klárt fyrir að fjárhagsvandi þeirra fyrirtækja sem fá opinbera aðstoð sé vegna COVID-19 kreppunnar og eigendur hafi nýtt eigin bjargir. Fyrirtæki sem fái aðstoð fylgi kjarasamningum, stundi ekki launaþjófnað og félagsleg undirboð og kennitöluflakk sé stöðvað. Þá þurfi skráning yfir raunverulega eigendur að liggja fyrir og fyrirtæki eða eigendur þeirra notist ekki við skattaskjól. Tryggja þurfi að fyrirtæki sem misnota úrræði stjórnvalda sæti viðurlögum.  

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV