Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Opnuðu moskur í trássi við sóttvarnareglur

14.05.2020 - 06:33
Erlent · Afríka · COVID-19 · Gínea
Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia
Moskur í Gíneu voru opnaðar í óleyfi af mótmælendum útgöngubanns þar í landi í gær. Moskurnar höfðu verið lokaðar síðan í lok mars til þess að reyna að hefta útbreiðslu kórónuveirufaraldursins. 

Samkvæmt AFP fréttastofunni þrifu mótmælendur mosku í borginni Kamsar hátt og lágt eftir að þeir opnuðu hana og áður en þeir tóku þar til bæna. AFP hefur eftir einum mótmælendanna að það skyti skökku við að götumarkaðir í Gíneu hafi fengið að haldast opnir í faraldrinum á meðan moskunum var lokað. 
Þetta gerðist einungis degi eftir að átök brutust út á milli borgara og lögreglu og sjö létu lífið þegar vegatálmum sem settir voru upp vegna faraldursins var mótmælt. AFP hefur hins vegar eftir stjórnmálamanninum Karamoko Bangoura að opnun moskanna hafi farið friðsamlega fram. Fólk hafi einfaldlega hópast saman við bænahúsin og brotið hengilása á dyrum þeirra. 
Tæplega 2400 hafa greinst smitaðir af COVID-19 í Gíneu og fjórtán látið lífið af völdum sjúkdómsins.