Hjólandi vísindamaður fann gullsnotru í Vaðlaskógi

14.05.2020 - 12:18
Mynd með færslu
 Mynd: Starri Heiðmarsson / NÍ - Náttúrufræðistofnun Íslands
Starfsmaður Náttúrufræðistofnunar á Akureyri rak nýverið augun í blómstrandi gullsnotru, fjölæran slæðing, sem aldrei hefur áður verið skráður hér. Starfsmaðurinn tekur þátt í átakinu Hjólað í vinnuna og má leiða líkur að því, að hann hefði ekki séð snotruna, hefði hann verið akandi.

Gullsnotran hefur gert sig heimakomna í Vaðlaskógi í Eyjafirði. Fram kemur í tilkynningu á vef Náttúrufræðistofnunar að þar sem vorið sé tiltölulega nýkomið séu enn mjög fáar íslenskar plöntur byrjaðar að blómstra, þá helst vetrarblóm og vorperla. Vökult auga hins hjólandi starfsmanns sá greinilega að þessi blóm áttu ekkert skylt við þær tegundir. Svo kom í ljós að þetta voru tvær ólíkar tegundir, báðar slæðingar. Annars vegar skógarsóley, sem er algeng annars staðar á Norðurlöndunum, en hin, gullsnotra, hefur aldrei verið skráð sem slæðingur hérlendis, þó hún sé nokkuð algeng í görðum. Hún gengur líka undir nöfnunum fagursóley, gullanimóna, gullsóley og gul skógarsóley.

Náttúrufræðistofnun segir þennan fund þó varla duga til að skrá gullsnotruna sem ílendan slæðing, til þess þarf hún að hafa þroskast frá fræi í að minnsta kosti tvær kynslóðir eða fjölga sér kynlaust í að minnsta kosti 30 ár. Hún er nú komin vöktunarlista og verður fylgst með afdrifum hennar í Vaðlareitnum. Náttúrufræðistofnun tekur fram að þeir sem ganga eða hjóla veiti umhverfinu alla jafna meiri athygli en þeir sem eru á bíl og þannig hafi hinn hjólandi starfsmaður stofnunarinnar, Starri Heiðmarsson fléttufræðingur, rekið augun í snotruna á leið heim úr vinnu. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV