Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hádegisfréttir: Svartsýn þjóðhagsspá og sýnatökur

14.05.2020 - 12:08
Yfirlæknir veirufræðideildar Landspítalans segir deildina geta annað til að byrja með mælingum á sýnum úr farþegum sem koma eftir 15. júní. Núverandi búnaður anni þó ekki ef 100 þúsund farþegar koma í hverjum mánuði.

Hádegisfréttir verða sagðar klukkan 12:20.

Þjóðhagsspá sem Íslandsbanki birti í morgun er talsvert svartsýnni en spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og sviðsmyndir Seðlabankans. Þó er gert ráð fyrir að landið taki að rísa strax á næsta ári. 

750 hafa sótt um laun í sóttkví á níu dögum. Vinnumálastofnun segir að bið verði á greiðslum.

Umhverfisráðherra vill nota tækifærið, nú þegar undirbúningi Hvalárvirkjunar hefur verið frestað, og kanna möguleika á annars konar landnotkun en til rafmagnsframleiðslu. Hann minnir á það mat Náttúrufræðistofnunar að friða skuli virkjunarsvæðið.

Búist er við að brjóta þurfi fjarlægðarreglur og aðrar takmarkanir vegna kórónuveirufaraldursins á Filippseyjum, þar sem fellibylur er kominn að ströndum. Flytja þarf þúsundir manna í öruggt skjól.

Lyfjastofnun Evrópu telur að ef bjartsýnustu spár rætast kunni bóluefni við kórónuveirunni að vera tilbúið eftir um það bil ár. Neyðarástandi vegna faraldursins hefur verið aflétt í flestum héruðum Japans. Byrjað er að skima fyrir veirunni í kínversku borginni Wuhan og áformað er að taka sýni úr öllum borgarbúum vegna nýrra smita sem þar hafa greinst að undanförnu.

Velta íslenskra greiðslukorta er þegar orðin jafn mikil og hún var áður en samkomubann vegna kórónuveirufaraldursins tók gildi 13. mars.

Stjórnarformaður auglýsingastofunnar Pipars undrast að alþjóðleg stofa sjái um markaðsherferð Íslandsstofu og telur það kosta ríkið meira þegar uppi er staðið. Forstjóri Ríkiskaupa tekur fyrir það og segir tryggt að allir standi jafnir.

Farþegar Strætó fá að heyra í tónlistarmanninum Daða Frey og ferðast í Gagnavagninum næstu daga í tilefni af því að Eurovision hefði átt að vera um helgina. Keppninni hefur verið frestað en Euro-stemmningunni er haldið á lofti víða.

Formaður KSÍ staðfestir að þreifingar hafi átt sér stað um mögulega komu enskra úrvalsdeildarfélaga til æfinga á Íslandi á næstu vikum. Hann telur þó ólíklegt að af því verði.

Frettir's picture
Fréttastofa RÚV